laugardagur, 17. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Austurlandið fagra

17. apríl 2013 kl. 14:58

Austurlandið fagra

Ég átti leið um Austurland síðastliðna páska.  Eftir að hafa keyrt framhjá hreindýrahjörðum,  draugalegum eyðibýlum og fjöllum svo hrikalega fallegum gat ég ekki annað en skammast mín pínulítið fyrir að hafa keyrt þessa leið allt of sjaldan.  Ég stökk út í hvert sinn sem ég sá hreindýr með myndavélina á lofti,  bændurnir horfðu á mig með áhyggjuhrukku á milli augnanna, eins og að ég væri ákaflega skrýtin að finnast þetta eitthvað merkilegt.

Útsýnið bara batnaði þegar hornfirsku gæðingarnir birtust, hver á fætur öðrum.  Þeir stóðu upp á tignarlegum klettunum, horfðu yfir landið sitt og sjóinn eins og þeir ættu það með feld og faxi. Eftir dágóða stund og áhugaverða skoðunferð um Borgarfjörð-Eystri, ákvað ég að nú væri mál að hafa upp á hestamönnum þarna í kring.  Fyrr en varði keyrði ég framhjá  skilti með mynd af hágengum töltara, á því stóð Tjarnarland.

Þegar í hlaðið var komið tók á móti mér hvolpur, ákaflega sætur, sennilega bordercollie blanda einhverskonar.   Á eftir honum komu svo eigendur hans, Einar Kristján Eysteinsson og unnusta hans Sigrún Júnía Magnúsdóttir. Þau tóku mér vel og sýndu inn í glæsilegt 30 hesta hús, með þremur rúmgóðum trippastíum þar að auki. Í hesthúsinu mátti sjá nokkra ansi spennandi gripi. 

Efnishross

Fyrst var teymdur fram  háfættur Seiðssonur á fjórða vetur.  Skörungslegur eins og faðir sinn, og lofar góðu, svo var þarna efnilegur fimm vetra geldingur nefndur Vörður frá Lundi, sammæðra  Stórval frá Lundi og undan Parkerssyninum Sigri frá Hólabaki.  Tjarnarlandsfjölskyldan hefur bæði notað hesta úr eigin ræktun eins og Takt frá Tjarnalandi í bland við aðra.

„Við höfum verið að fá frá 6 til 10 folöld á ári, þau folöld sem fæddust á síðasta ári voru undan Roða frá Múla og Ugga frá Bergi.  Einnig höfum við notað Hróð frá Refstöðum, Seið frá Flugumýri, Klett frá Hvammi og Hrímni frá Ósi  síðastliðin ár.“ segir Einar. Þarna mátti einnig sjá litfögur fimm vetra trippi undan Degi frá Strandarhöfði en afkvæmi hans segir Einar vera skemmtilega viljug og taumlétt.

Alflottastur á hægu

Í Tjarnarlandi var byggð reiðhöll árið 2008 við hlið hesthússins sem gott er að þjálfa í þegar ekki er hægt að þjálfa utandyra. „Þetta hefur náttúrulega bjargað heilmiklu, veturnir geta verið svolítið  byljóttir, norðaustan áttin getur verið andskoti köld hérna.“Segir Einar um leið og hann beislar forvitnilegan, hrynjandason rauðan að lit.  „Hann er nýkominn að sunnan, þar sem hann og karl faðir minn voru í smá uppfærslu hjá Sigga Sig sem segir að þetta sé alflottasti hægatöltarinn á landinu,“ Segir Einar og brosir í annað. Hann skellti sér svo á bak honum Gyrði frá Tjarnalandi sem olli mér ekki vonbrigðum  enda glæsihestur þar á ferð.  Sá rauði er í eigu föður Einars, Eysteins Einarssonar en fjölskyldan rekur saman búið á Tjarnarlandi. 

Spurður um framhaldið segir Einar stefnuna tekna á fjórðungsmót og aldrei að fjölskyldan kíki í hestaferð í sumar„  Ég hef nú alltaf litið á hestaferðir sem vesen frá upphafi til enda, svo fór ég í fyrra í hestaferð með sysur minni Guðrúnu Ásdísi þar sem við riðum meðal annars til Vopnafjarðar , þessi ferð var algjör snilld og þvílík tamning fyrir hrossin,“ segir Einar að lokum.

meðfylgjandi myndband sýnir myndir af Austurlandinu úr sömu ferð

Sá rauði, flottasti hægatöltari landsins segir siggi sig allavega

Sá rauði, alflottastur á hægu tölti á landinu, segir Siggi Sig allavega!

Glæsileg reiðhöll

Reiðhöllin í Tjarnarlandi er glæsileg

Forvitni

Forvitnir félagar

Hreindýrin á Austurlandi

Hreindýrin á Austurlandi

Einar Kristján með Dagsdóttur

 

gigja@eidfaxi.is