laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Auknar kröfur – aukin gæði

14. ágúst 2019 kl. 15:05

Benjamín Sandur fagnar sigri í fimmgangi ungmenna á Íslandsmótinu í sumar

Grein eftir Gísla Guðjónsson sem birtist í síðasta tölublaði Eiðfaxa og fjallar um þátttökutakmarkanir á Íslandsmóti í hestaíþróttum

 

 

Nú er nýafstaðið Íslandsmótið í hestaíþróttum, sem haldið var á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík. Að mótinu stóðu félögin átta sem staðsett eru á suðvesturhorninu. Þau félög eru; Máni, Brimfaxi, Sörli, Sóti, Sprettur, Fákur, Hörður og Adam. Mótið tókst afar vel og má hrósa mótshöldurum fyrir frábært mót, fallegt og snyrtilegt mótssvæði og gott viðmót í hvívetna. Það má þó velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að herða kröfurnar á því hvaða pör, knapi og hestur, eiga þátttökurétt á íslandsmóti?

Einkunnalágmörk

Samkvæmt lögum og reglum LH ber keppnisnefnd að ákveða og gefa út lágmörk fyrir Íslandsmót á hverju ári fyrir allar keppnisgreinar. Ekki eru einkunnalágmörk fyrir keppendur yngri flokka, þ.e.a.s. ungmennaflokk, unglingaflokk og barnaflokk. Einkunnalágmörkin í ár voru eftirfarandi tölt T1 6,50, Fjórgangur V1 6,20, Fimmgangur F1 6,0, Tölt T2 6,20, Gæðingaskeið PP1 6,50, 250 metra skeið 26 sekúndur, 150 metra skeið 17 sekúndur og 100 metra skeið 9 sekúndur. Einkunnir parsins mega vera allt að tveggja ára gamlar. Til þess að gera sér grein fyrir því hversu mörg pör eiga þátttökurétt á Íslandsmótinu, er best að skoða stöðulista frá árinu áður.

Vel yfir 100 pör í sumum greinum

Þegar stöðulisti ársins 2018 er skoðaður í fjórgangi, að þá eiga alls 72 pör keppnisrétt á Íslandsmóti. Þetta er að sjálfsögðu að þeim undanskildum sem náð hafa einkunnalágmörkum á þessu ári. Taka skal fram að þetta er stöðulisti úr fjórgangi V1 þar sem einn knapi ríður inn á í einu. Þeir sem taka þátt í léttara keppnisformi í fjórgangi, V2 þar sem fleiri en einn knapi ríða inn á í einu, eiga einnig rétt til þátttöku á Íslandsmóti nái þeir fyrirfram ákveðnum einkunnalágmörkum. Það má því gera sér glögga grein fyrir því hversu gífurlegur fjöldi knapa vinnur sér þátttökurétt í hverri grein. Ef gripið er niður í stöðulista í tölti að þá er það sama upp á teningnum. Þar eiga 96 pör þátttökurétt af þeim sem tóku þátt í T1, þetta er með sömu annmörkum og í fjórgangi, á einungis við um árið 2018 og að þeim undanskildum sem ávinna sér þátttökurétt í gegnum T3. Það má því gera ráð fyrir að í vinsælli keppnisgreinum séu það vel yfir 100 pör sem eigi þátttökurétt á Íslandsmóti

Erfitt að áætla fjölda keppanda fyrirfram

Eins og áður segir er það keppnisnefnd sem ákveður einkunnalágmörkin ár hvert fyrir Íslandsmót. Formaður keppnisnefndar er Ólafur Þórisson. Greinahöfundur hafði samband við hann og spurði hver væri ástæða þess að einkunnalágmörk á Íslandsmóti væru ekki strangari en raun ber vitni? „Einkunnarlágmörk eru einungis í fullorðinsflokkum og eru það gömlu meistaraflokks lágmörkin, þessi lágmörk hafa verið notuð í fjölda ára. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hversu margir ná þessum lágmörkum þegar þau eru sett um miðjan vetur og einnig hversu margir keppendur ætla á Íslandsmót þó svo þeir nái lágmörkum og hefur fjöldi þátttakanda undanfarin ár verið viðráðanlegur. Þó svo að í ár hafi verið sprenging í skráningarfjölda og Íslandsmót fullorðna og Íslandsmót yngri-flokka haldið saman. Einnig verður fjöldi þátttakanda að vera nægur til að mótið beri sig fjárhagslega fyrir mótshaldara.  Með hverju árinu sem líður verður breiddin í keppnishrossum ávallt meiri og ekkert því til fyrirstöðu að endurskoða lágmörkin inná Íslandsmót.“

 

 

Mögulegar útfærslur

Það er skoðun greinahöfundar að það ætti að vera mikil samkeppni meðal knapa um það að fá að taka þátt í Íslandsmóti. Með því að fara t.d. eftir stöðulistum ár hvert að þá myndi myndast spenna og stemming um það hvaða pör, knapi og hestur, komast inn á mótið. Þá yrði um leið mikill heiður og ákveðin viðkenning á árangri að vera einn af þeim sem vinnur sér inn þátttökurétt. Hversu mikill fjöldi þátttakanda væri í hverri grein má taka til skoðunar, og hefur greinahöfundur ekki myndað sér skoðun á því að svo stöddu. Líklega á það við rök að styðjast að hafa ekki einkunnalágmörk í yngri flokkum þ.e. unglinga- og barnaflokki. Með því móti eiga allir þátttökurétt sem ýtir undir það að fleiri börn og unglingar taki þátt. Stöðulista mætti nota í fullorðinsflokki og einnig í ungmennaflokki. Í þessum flokkum er keppt í hringvallargreinum þar sem einn keppandi er inn á í einu og því erfiðleikastigið orðið hærra. Með því að notfærast við stöðulista í ungmenna- og fullorðinsflokkum vita mótshaldarar einnig við hvaða fjölda keppanda má búast við á mótið og myndi það auðvelda framkvæmd og undirbúning.

Sameiginleg mót?

Á nýafstöðnu Íslandsmóti fór fram keppni fullorðinna sem og yngri flokka. Misjafnt er á milli ára hvort að mótin eru haldin sameiginlega eða í sitthvoru laginu. Það skal taka fram að á þessu móti tókst mótshöldurum að gera öllum hátt undir höfði. Keppendur yngri flokka nutu sín jafn vel og hinir eldri, en það hefur því miður stundum gerst á þessum sameiginlegu mótum að keppendur yngri flokka hafa orðið utanveltu í umræðu og athygli og þá sérstaklega þegar keppt er á tveimur völlum samtímis. Það er þó önnur umræða sem má taka um það hvort halda eigin mótin sameiginlega eða ekki, en ljóst er að við sameiningu taka mótin lengri tíma.

Áhorfendur

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um hversu fáir áhorfendur eru að jafnaði á hestamannamótum. Áhorfendum á landsmótum hefur fækkað töluvert frá því sem mest var og fáir áhorfendur eru á Íslandsmótum, sé miðað við þann fjölda sem stundar hestamennsku á Íslandi. Með því að hafa einungis allra bestu pör landsins í keppni á Íslandsmóti og með því móti stytta mótin, ætti að verða auðveldara að markaðssetja þau og laða að fleira fólk. Ef mótið stæði frá fimmtudegi fram á sunnudag og til leiks mættu einungis allra bestu íþróttahestar landsins aukast líkurnar á því að fólk mæti til að fylgjast með. Það er skoðun greinahöfundar að herða eigi kröfur um þátttöku á Íslandsmótum og með því færa þau til enn meiri vegs og virðingar en nú þegar er gert.