þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukin færni og sjálfstæði með hjálp hesta

23. október 2011 kl. 11:33

Aukin færni og sjálfstæði með hjálp hesta

Mikil aðsókn er í reiðnámskeið sem ætluð eru fólki með fötlun, hreyfi- og þroskahömlur sem hestamannafélagið Hörður og Hestamennt standa fyrir, nú annað árið í röð.

“Núna erum við með nemendur frá 6 ára og upp í 23 ára með mismunandi líkamlega færni og einnig sækja nokkuð margir einstaklingar með einhverfuröskun námskeiðið. Krakkarnir koma aftur og aftur á námskeiðin og erum við í óða önn að bóka fyrir námskeiðin eftir áramót,” segir Auður G. Sigurðardóttir formaður fræðslunefndar fatlaðra hjá Herði. Hún segist greina margþætt framför hjá þátttakendum námskeiðanna. “Það sem þau upplifa helst er aukið sjálfstæði, aukna getu og færni á hestbaki og í samskiptum við hestana. Ótrúlegt er að sjá framfarir hjá þeim í hverjum einasta tíma, bæði hvað varðar sjálfstraust og færni á hestunum og ekki síst aukin hreyfifærni og liðleiki.”

Upphafið starfseminnar segir Auður hafa fæðst af greinilegri eftirspurn eftir einhvers konar vettvangi þar sem fólk með allavega færni gætu komist í návist hestsins. “Við stofnuðum Fræðslunefnd fatlaðra innan Hestamannafélagsins Harðar veturinn 2010. Markmið nefndarinnar er að gera öllum kleift , sama hversu skert færnin er á hinum ýmsu sviðum, að upplifa frelsið og sjálfstæðið sem fylgir því að vera á hestbaki. Gefa öllum tækifæri að komast í snertingu við náttúruna og finna það sérstaka samband sem getur myndast á milli manns og hests.”

Í framhaldi voru reiðnámskeiðin skipulögð með þessum feykigóða árangri. Námskeiðin, eins og þau eru skipulögð í dag, eru fyrir öll börn og ungmenni sem eiga við einhvers konar fötlun eða skerta getu að stríða vegna sjúkdóma eða af öðrum ástæðum, þeim sem hafa áhuga á að umgangast hesta eða vilja kynnast hestamennsku.

Markmið námskeiðanna er:

  • að eiga frábæra stund saman í skemmtilegur umhverfi
  • að þátttakendur geti umgengist hesta af öryggi og óttaleysi
  • að þeir kynnist hestinum og læri undirstöðuatriði í umhirðu hestsins.
  • að auka sjálfstæði og færni þeirra í samskiptum við hesta
  • að bæta líkamsvitund þátttakenda
  • að auka samhæfingu handa, fóta og skynfæra
  • að styrkja leiðtogahlutverk í samskiptum við hestinn

Lagt er áhersla á fjölbreytni og að allir nemendur fái sem mest út úr námskeiðinu eftir þörfum hvers og eins. Kennslan er í höndum reyndra leiðbeinanda frá Hestamennt sem eru með margra ára reynslu í reiðkennslu fatlaðra.

En hinir framtakssömu hestamenn hjá fræðslunefndinni hafa einnig ýmsar hugmyndir er snúa að þróun og útvíkkun starfseminnar enn frekar. “Við höfum hug á að ná til fólks sem er í endurhæfingu vegna ýmissa ástæðna. Einnig eru hugmyndir uppi um að koma  þessari útfærslu á hestamennsku í keppnisform eins og gert hefur verið á Norðurlöndunum, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Síðasta vor héldum við keppnismót fyrir fötluð börn og ungmenni og tókst það með eindæmum vel og stefnt er á að gera annað eins í vetur. Framtíðarsýnin er sú að geta haldið þessi námskeið reglulega og þau verði sjálfbær. Verið er að vinna í hugmyndum til að sú framtíðarsýn rætist. Helsta vandamálið sem við höfum rekist á er kostnaðurinn við rekstur á svona námskeiðum en þau eru ívið flóknari í rekstri en hefðubundin námskeið. Aðeins 3-4 nemendur eru á hverju námskeiði og það þarf töluvert af aðstoðarfólki sem í dag eru allt sjálfboðaliðar. Reynst hefur verið erfitt að fá fullorðna í sjálfboðaliðastörfin en við höfum verið með hörkuduglega krakka sem hafa aðstoðað okkur tvo síðasta vetur.”

Þeim sem kunna að hafa áhuga á að aðstoða og taka þátt í þessu uppbyggilega verkefni er bent á að hafa samband við Auði í gegnum netfangið audurs@gmail.com eða í gegnum síma 899-7299.