föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Atli kominn heim

7. febrúar 2012 kl. 09:27

Atli Guðmundsson, tamningamaður og hestaþjálfari í Dal.

Kominn í sitt gamla starf í Dal í Mosfellsveit

Atli Guðmundsson, tamningamaður og hestaþjálfari, er kominn aftur í sitt gamla starf á hestamiðstöðinni Dal í Mosfellsveit eftir tíu ára hlé. Hann hóf störf í desember og segir að þetta sé eins og að vera kominn heim.

„Þetta er allt saman mjög ánægjulegt. Aðstaðan er mun meiri og betri en þegar ég var hér síðast, komið nýtt hesthús og ný reiðhöll. En ég áttaði mig líka á því þegar ég fór að ríða gömlu reiðleiðirnar hvað þetta er ákjósanlegt svæði til að byggja upp gæðinga. Þetta er einhvern veginn alveg eins og það þarf að vera,“ segir Atli.

Atli segir að framfarir í ræktun séu miklar og það finni hann glöggt á hestakostinum í Dal. Hann þekkir að sjálfssögðu vel til þeirra hrossa sem eru á bak við þau trippi sem eru í tamningu á stöðinni.

„Það er góður efniviður hér. Við erum með tíu stóðhesta í tamningu, hryssur og geldinga. Sumar hryssurnar sem ég tamdi og sýndi hér áður eru ömmur trippanna sem eru nú í tamningum. Þetta er fljótt að líða, en jafnframt mjög gaman að kynnast hrossunum hér í Dal upp á nýtt á þennan hátt.“