sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Athyglisverðar myndir á RIFF

20. september 2011 kl. 10:29

Athyglisverðar myndir á RIFF

Í rólegri tíð haustins gæti hestamönnum þótt áhugavert að vita af því að á kvikmyndahátíðinni RIFF, sem hefst næstkomandi fimmtudag, eru á dagskrá tvær myndir sem tengjast hestum!

Buck er sagan af upprunalega hestahvíslaranum, Buck Brannaman, sem var fyrirmmyndin að skáldsögu Nicholas Evans og naut gífulegra vinsælda. Afar góður rómur hefur verið gerður að myndinni, sem er frumraun heimildarmyndargerðakonunnar Cindy Meehl, og vann hún m.a. áhorfendaverðlaun á Sundance kvikmyndahátíðinni í ár.

Buck verður sýnd fjórum sinnum í Bíó Paradís - 22. september kl. 16:00, 23. september kl. 18:00, 26. september kl. 18:00 og 29. september kl. 20:00.

Þá gæti nýjasta mynd hins goðsagnakennda kvikmyndagerðarmanns Béla Tarr, Hesturinn í Tórínó, vakið áhuga kvikmyndaunnenda innan hestageirans. Þar er farið ofan í sögu hestsins sem heimspekingurinn Friedrich Nietzsche sá mann berja grimmilega á torgi í Tórínó árið 1889. Sagt er að atvikið marki upphaf veikinda Nietzsches, en hann varði síðustu 10 árum æfi sinnar í þögn eftir atburðinn. Myndin fjallar hins vegar ekki um Nietzsche, heldur er þetta saga hestsins, eiganda hans og dóttur.

Hesturinn í Tórínó verður aðeins sýnd tvisvar sinnum, í Háskólabíói – 26. septmeber kl. 22:00 og 27. september kl. 17:00.

Frekari upplýsingar um RIFF, dagskrána og myndirnar og miðasölu má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar.