miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áskorun frá HÍDÍ

1. febrúar 2011 kl. 14:16

Áskorun frá HÍDÍ

Aðalfundur Hestaíþróttadómarafélags Íslands fór fram í gærkvöldi. Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskrá og var Gylfi Geirsson endurkjörinn formaður félagsins...

Aðrir í stjórn eru þeir Pjetur N. Pjetursson og Þórir Örn Grétarsson. Varamenn voru endurkjörnir þeir Karl Áki Sigurðsson og Sigurbjörn Viktorsson. Rekstur félagsins er góður og starfsemi verið hefðbundin með endurmenntunarnámskeiðum norðan- og sunnanlands, auk þess sem nýdómaranámskeið var haldið sl. vor. Þar stóðust 13 próf og öðluðust réttindi til viðbótar við þá 109 sem voru virkir sl. ár. Fyrsta verkefni stjórnarinnar eftir aðalfund verður að dagsetja og skipuleggja endurmenntunarnámskeið ársins og verða þau kynnt fljótlega.  Taxti dómara var samþykktur kr. 2.500 á tímann og 12.000 kr. fyrir útkallið. Kílómetragjald verði samkvæmt ríkistaxta en mælst er til þess að dómarar leggi sig fram við að sameinast í bíla og spara í aksturskostnaði.
Fjölbreyttar umræður fóru fram undir liðnum önnur mál. Meðal annars var rætt um siðareglur dómara, nauðsyn þess að alþjóðlegar dómararáðstefnur séu haldnar á Íslandi með reglulegu millibili og hugmyndir að áhugaverðu námsefni fyrir árlegt endurmenntunarnámskeið.  Að lokum var eftirfarandi áskorun samþykkt samhljóða.
„Aðalfundur Hestaíþróttadómarafélags Íslands, haldinn 31. janúar 2011 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, harmar þá ómálefnalegu umræðu um störf dómara sem verið hefur í gangi undanfarið. Jafnframt skorar fundurinn á ritstjóra vefmiðla að sýna fagmennsku í fréttaflutningi sínum og hafa grundvallargildi blaðamennskunnar að leiðarljósi, þ.e. að gæta hlutleysis og fjalla um málefni frá hliðum beggja hagsmunaðila.
Greinargerð:
Máttur internetsins er mikill og vald þeirra sem færa fréttir út um heiminn ekki síður og ættu fjölmiðlamenn að hafa það í huga við skrif sem byggð eru á orðrómi einum saman og væna fólk um vanþekkingu og óheiðarleika í starfi.
Rætin og órökstudd umræða sem þrífst í nafnleysi á netmiðlum mun ekki færa störf dómara á hærra plan. Hún skapar aðeins þrúgandi andrúmsloft og dregur úr sjálfstrausti. Hestaíþróttadómarar þurfa allir að standast próf og sinna reglulegri endurmenntun til að viðhalda réttindum sínum. Það er metnaður HÍDÍ að bæta menntun dómara enda hafa kröfur hvað þann þátt varðar aukist mikið undanfarin ár. Hafi keppendur eitthvað við dómgæslu að athuga er rétti farvegurinn að snúa sér til yfirdómara.
Dómarar eru ekki hafnir yfir gagnrýni og málefnaleg og uppbyggileg umræða er af hinu góða. En hún þarf að vera á faglegum grundvelli og fara réttar boðleiðir eigi hún að skila árangri.“