mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Askan liggur yfir eins og steyputeppi-

21. apríl 2010 kl. 16:15

Askan liggur yfir eins og steyputeppi-

Ljóst er að öskufallið frá gosinu í Eyjafjallajökli hefur leikið bændur á svæðinu undir Eyjafjöllum grátt og á nokkrum bæjum sem staðsettir eru næst jöklinum liggur nú askan yfir öllu eins og steyputeppi. Þetta hefur mikið fjárhagslegt og vitanlega tilfinningalegt tjón í för með sér og ljóst þykir að ekki verði þau tún heyjuð í sumar sem liggja undir ösku nú.

Betur hefur þó farið en í stefndi með búfénað á þessu svæði og svo virðist sem bændur hafi náð að flytja í burtu flest þau hross sem ekki var hægt að hýsa eða koma í annað skjól fyrir öskufallinu. Þó hefur heyrst af nokkrum bændum sem þurft hafa að fella hross og annan búfénað sem ekki var hægt að hýsa.

Eins og er eru góðu fréttirnar þær að mjög hefur dregið úr gosvirkni í Eyjafjallajökli og nánast ekkert öskugos er þar lengur (samkvæmt mbl.is). Þó eru enn engar vísbendingar um það að eldgosinu sé að ljúka og erfitt að spá fyrir um framvinduna, þar sem enn kemur mikill gosórói fram á jarðskjálftamælum.

Eftir því sem dýralæknar segja, eru það fyrst og fremst fylfullar hryssur og ungviði sem eru viðkvæmust fyrir návígi við öskuna. Mikilvægt er að hafa í huga þau langvarandi áhrif sem flúorið í öskunni getur haft en gosefni sem berast með vindi geta mengað gróður og vatn og þannig borist ofan í skepnur.

Flúorið sest fyrst og fremst að í tönnum og beinum og flúor í miklu magni í líkamanum veldur kalkskorti, vegna þess eiginleika síns að binda kalk í torleyst sambönd. En bráð eitrun flúors leiðir oft til breytilegrar helti, vegna skemmda sem verða á liðbrjóski og kalkútfellinga í vöðvafestingum við liðamót. Önnur afleiðing bráðrar eitrunar vegna innöndunar eru særindi og bólgur í öndunarfærum, auk þess að meltingarfæri geta skemmst, sem og líffæri eins og nýru og lifur.

Askan er mjög hættuleg öndunarfærum manna og hesta og forðast ber algjörlega að hún berist ofan í lungun og talið er að hún geti valdið astma hjá fólki mörgum árum eftir að hún berst ofan í lungun.

Þessir minnispunktar frá Matvælastofnun vegna eldgossins og öskufallsins eru í fullu gildi og verða aldrei of oft áréttaðir:

Öskufall

•    Forða skepnum undan öskufalli. Hýsa þær eða flytja annað ef mögulegt er.
•    Tryggja skepnum  hreint drykkjarvatn. Kanna ástand vatnsbóla og sjá til þess að yfirborðsvatn berist ekki í þau. Hafa rennandi vatn hjá skepnum á útigangi.
•    Gefa skepnum á útigangi gott og mikið fóður, tryggja þeim aðgang að saltsteinum og halda þeim frá beit eins og kostur er. Gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aska falli á fóðrið.
•    Tryggja eftir föngum að aska berist ekki inn í gripahús.
•    Sama gildir um gæludýr og aðrar skepnur að mikilvægast er að forða því að þau drekki úr stöðnu vatni og halda þeim sem mest innandyra.

Flóðahætta

•    Meta aðstæður og ákveða hvort skepnum sé betur borgið innanhúss eða utan.
•    Tryggja eftir því sem kostur er að skepnur á útigangi geti forðað sér undan flóði.

Slys eða sjúkdómar

•    Hafa samband við dýralækni ef skepnur slasast eða verða veikar. Reynt er að tryggja að dýralæknar komist þangað sem nauðsyn krefur.

Myndasyrpur tengdar gosinu:

Myndasyrpa ljósmyndarans Golla á www.mbl.is
Myndasyrpa Ómars á www.mbl.is
Video af miklum höggbylgjum í gosgígnum eftir Ómar Ragnarsson á www.ruv.is
Video af mikilli orku í gosinu eftir Einar Rafnsson á www.ruv.is