fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ásakanir úr hörðustu átt

21. október 2014 kl. 13:56

Fulltrúi frá hestamannafélaginu Létti á opnunarhátíð Landsmóts 2014.

Fulltrúar frá Létti lýsa yfir stuðningi við stjórn LH.

Fulltrúar frá hestamannafélaginu Létti á Akureyri, Sigfús Ólafur Helgason, Hólmgeir Valdemarsson, Haukur Sigfússon og Sveinn Ingi Kjartansson, lýsa yfir fullum stuðningi við stjórn LH í tilkynningu. Þar fordæma þeir allan málflutning sem hafður var uppi í umræðunni um staðarval Landsmóts og ásakanir Skagfirðinga um óheiðarleg vinnubrögð stjórnar LH. Þeir segja ásakanir koma úr hörðustu átt ef saga deilna um staðarval Landsmóta hestamanna er skoðuð.

„Vegna ummæla formanns Hestamannafélagsins Stíganda, Jónínu Stefánsdóttur, sem hún lét falla í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 að kvöldi mánudagsins 20. október, um að öll hestamannafélög á landsbyggðinni styddu málflutning Hestamannafélaganna í Skagafirði í kjölfar Landsþings hestamanna, viljum við undirritaðir þingfulltrúar Hestamannafélagsins Léttis á 59. ársþingi LH á Selfossi 17.-18. október sl. taka eftirfarandi fram.

Við, fulltrúar Hestamannafélagsins Léttis, studdum ekki tillögu Skagfirðinga um aðförina að stjórn LH og fordæmum allan málflutning sem hafður var uppi í umræðunni um staðarval Landsmóts og ásakanir Skagfirðinga um óheiðarleg vinnubrögð stjórnar LH. Þær ásakanir koma úr hörðustu átt ef saga deilna um staðarval Landsmóta hestamanna er skoðuð.

Við lýsum yfir fullum stuðningi við fyrrum formann LH, Harald Þórarinsson, sem og stjórn samtakanna.“