þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Artemisia sigurvegari Meistaradeildar - viðtal

30. mars 2012 kl. 22:30

Artemisia sigurvegari Meistaradeildar - viðtal

Artemisia Bertus er sigurvegari Meistaradeildar í hestaíþróttum árið 2012.

Hún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir vandaða og fallega reiðmennsku í vetur og hampaði reiðmennskuverðlaunum Meistaradeildar. Hún sigraði fjórgang og gæðingafimi, varð í 5. Sæti í tölti og önnur í gæðingaskeiði. Nú síðast varð hún 3.-4. sæti í stórskemmtilegri lokakeppni mótsins.

Artemisia var afburðanemandi á Hólum. Hún útskrifaðist sem reiðkennari árið 2006 með hæstu einkunn nemenda og hafði þá hlotið fjölmörg verðlaun frá skólanum, meðal annars fyrir hæstu einkunn í tamningaprófi, besta árangur í reiðmennsku og reiðkennslu. Eftir útskrift starfaði hún sem reiðkennari á Hólum í tvö ár og hefur einnig unnið á nokkrum af helstu ræktunarbúum landsins en þar má nefna Þjóðólfshaga 1, Auðsholtshjáleigu, Hafsteinsstaði, Votmúla og Blesastaði 1A. „Það var mér mikil og nauðsynleg reynsla að vinna með því góða fólki sem stendur að þessum mögnuðu ræktunarbúum. Draumurinn var samt alltaf að verða sjálfstætt starfandi.“ Artemisia tók því af skarið árið 2010 og kom sér fyrir á Ingólfshvoli þar sem hún hefur 23 hross í tamningu og einn starfsmann, Ingeborg Björk Steinsdóttur frá Noregi. „Starfsemin er krefjandi og erfið að mörgu leyti en ég hef lært að bjarga mér. Um leið veitir sjálfstæðið mér frelsi. Ég hef mínar skoðanir á því hvernig ég vil að hlutirnir séu og hef lært að nýta þrjóskuna sem í mér býr. Ef maður vill ná langt er nauðsynlegt að skapa sín eigin tækifæri, maður fær aldrei neitt gefins,“ segir hún skelegg í viðtali sem lesa má í nýjasta tölublaði Eiðfaxa.

Fimm efstu knapar Meistaradeildar:

  1. Artemisia Bertus  lið Hrímnis 48,5
  2. Jakob Svavar Sigurðsson lið Top Reiter / Ármót      41
  3. Sigurbjörn Bárðarson Lýsi 36
  4. John Kristinn Sigurjónsson Lýsi 35
  5. Sara Ástþórsdóttir Ganghestar / Málning      34