mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Artemisia lætur verkin tala-

22. febrúar 2012 kl. 11:49

Artemisia lætur verkin tala-

„Ég hef fengið feiknamikil viðbrögð frá fólki. Það er ótrúlega gaman og mikil hvatning fyrir mig til að gera enn betur,“ segir Artemisia Bertus stigahæsti knapi Meistaradeildarinnar en eins og kunnugt er orðið sigraði hún bæði fjórgang og gæðingafimi.

Artemisia starfar sjálfsætt við tamningar og þjálfun og hefur aðstöðu fyrir 23 hross að Ingólfshvoli. Það kemur kannski lítið á óvart að eftirspurn eftir starfskröftum hennar hafa aukist til muna undanfarnar vikur. „Ég hef fundið fyrir áhuga fólks sem vill senda hross í þjálfun til mín og er það mikill heiður fyrir mig. En ég er með takmörkuð pláss og vill ekki taka of mikið að mér. Ég er líka þannig knapi sem vill helst þjálfa hrossin yfir lengra tíma,“ segir hún en það eru einmitt viðskiptavinir hennar til nokkurra ára, eigendur Gestüt Sunnaholt í Þýskalandi sem eiga glæsilegu gæðingana, Óskar frá Blesastöðum 1A og Korg frá Ingólfshvoli, ásamt fleirum sem Artemisia þjálfar.  „Ég er í samstarfi við þetta frábæra fólk. Þau hafa gefið mér tíma til að þjálfa hrossin í lengri tíma og það skiptir sköpum fyrir mig. Einnig hafa þau alltaf haft trú á mér og gefið mér mikil frelsi. Ég hef notað tímann í að byggja hestana upp á kerfisbundinn hátt, með mikilli þolinmæði og nákvæmni. Róm var ekki byggð á einum degi og góðir hlutir gerast hægt,“ segir Artemisia réttilega.

Innt eftir því hvað býr að baki góðum árangri segir Artemisia að máli skiptir að hafa háleit markmið og að þora að láta sig dreyma. „Velgengnin í Meistaradeildinni hefur komið mér skemmtilega á óvart, en ég vissi hins vegar að ég væri með frábæra hesta. Ég set alltaf markmiðið hátt - ég segi það hins vegar sjaldan upphátt. Mér finnst best að láta verkin tala. Mér finnst langbest að koma fólki og sjálfri mér á óvart.“

Artemisia mætir með Óskar á morgun, en hann er að taka þátt í sinni fyrstu töltkeppni. Þeir eflaust margir sem bíða spenntir eftir að sjá hvort sigurganga hennar heldur áfram. Artemisia er hins vegar ekki að láta velgengni eða pressu stíga sér til höfuðs og reynir að undirbúa sig í rólegheitum. „Ég held áfram að þjálfa eins og ég hef alltaf gert og passa að æfa ekki um of. Ég reyni líka að leyfa mér að hlakka pínulítið til. Liðsfélagar mínir í Hrímni eru einnig mjög vel ríðandi í þessari grein þannig að ég vona að okkur öllum gangi sem allra best,“ segir Artemisia enda engir aukvisar með henni í liði; sigurvegari töltkeppninnar í fyrra er einmitt Hrímnismaður, Viðar Ingólfsson. Hann mun mæta með hryssuna Vornótt frá Hólabrekku. John Kristinn kemur hins vegar með stóðhestinn Tón frá Melkoti, en þeir sigruðu töltkeppni Gullmótsins nú síðsumars.

Töltkeppnin hefst kl. 19.30 í Ölfushöllinni og er aðgangseyrir 1.500 kr.

Einnig verður sýnt beint frá mótinu hér á vef Eiðfaxa.