laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Artemisia Bertus efst eftir forkeppni

2. febrúar 2012 kl. 21:19

Artemisia Bertus efst eftir forkeppni

Forkeppni fyrsta móts Meistaradeildarinnar er nú nýlokið.

Meistaradeildin var sett kl. 19 þegar knapar og lið voru kynnt til leiks ásamt dómurum mótaraðarinnar.

Áður en keppni hófst minntist Trausti Þór Guðmundsson tamningameistarans Reynis Aðalsteinssonar með fallegum orðum og áhorfendur vottuðu virðingu sína með einnar mínútu þögn.

Að lokinni forkeppni er liðsmaður Hrímnis Artemisia Bertus efst en hún hlaut 7,33 í einkunn fyrir mjúka og fallega sýningu á Óskari frá Blesastöðum 1A.

Annar er liðsmaður Top Reiter/Ármóts, Þorvaldur Árni Þorvaldsson efstur en hann hlaut 7,27 í einkunn. Hann situr stóðhestinn Segul frá Flugumýri II. Segull þessi fór fyrir kynbótadóm í vor og hlaut þá fjórar níur, fyrir hægt tölt, brokk, fet og fegurð í reið og einkunnina 9,5 fyrir tölt.

Kempurnar Hulda Gústafsdóttir og Sveigur frá Varmadal eru þriðju eftir örugga sýningu og sigurvegari síðasta árs, Sigurður Sigurðarson og Loki frá Selfossi eru fjórðu.

Guðmundur Björgvinsson, Ólafur Ásgeirsson og Hinrik Bragason eru jafnir með 7,03 og horfir því í hörku B-úrslitakeppni, en ásamt þeim munu Viðar Ingólfsson og Teitur Árnason  mæta til leiks.

Sýning afmælisbarns dagsins, Didda Bárðar og Penna frá Glæsibæ dugði hins vegar ekki í úrslit og laut þar m.a. í lægra haldi fyrir dóttur sinni Sylvíu Sigurbjörnsdóttur sem þreytti frumraun sína í Meistaradeildinni með sóma, hlaut 6,80 í einkunn en hún rétt missti af sæti í B-úrslitum.

Eyjólfur Þorsteinsson og Klerkur frá Bjarnanesi brást eilítið bogalistinn þegar þeir ætluðu að sýna stökk á meðan John Kristinn Sigurjónsson gerði ógilda sýningu því hann reið hálfum hring of langt á feti eftir annars fallega reið á Indíu frá Álfhólum.

Hörður Hákonarson yfirdómari er ánægður með samræmi milli dóma, sem var 0,47. Hann sagði sýningar keppenda yfir höfuð góðar, margir hestar væru með glæsilegar sýningar miðað við árstíma.

Staðan eins og hún er núna:

 1. Artemisia Bertus        Hrímnir Óskar frá Blesastöðum 1A            7,33
 2. Þorvaldur Árni Þorvaldsson      Top Reiter / Ármót      Segull frá Flugumýri II            7,27
 3. Hulda Gústafsdóttir     Árbakki / Norður-Götur  Sveigur frá Varmadal            7,23
 4. Jakob Svavar Sigurðsson Top Reiter / Ármót      Asi frá Lundum II            7,20
 5. Sigurður Sigurðarson    Lýsi    Loki frá Selfossi            7,13
 6. Ólafur Ásgeirsson       Spónn.is        Hugleikur frá Galtanesi            7,03
 7. Hinrik Bragason Árbakki / Norður-Götur  Ketill frá Kvistum            7,03
 8. Guðmundur Björgvinsson  Top Reiter / Ármót      Glaðdís frá Kjarnholtum I            7,03
 9. Viðar Ingólfsson        Hrímnir Vornótt frá Hólabrekku            7,00
 10. Teitur Árnason  Árbakki / Norður-Götur  Hængur frá Hæl            6,93
 11. Sylvía Sigurbjörnsdóttir        Ganghestar / Málning    Þórir frá Hólum            6,80
 12. Lena Zielinski  Auðsholtshjáleiga       Njála frá Velli II            6,80
 13. Eyjólfur Þorsteinsson   Lýsi    Klerkur frá Bjarnanesi            6,70
 14. Sigurbjörn Bárðarson    Lýsi    Penni frá Glæsibæ            6,60
 15. Ævar Örn Guðjónsson     Spónn.is        Þokkadís frá Efra-Seli            6,53
 16. Sara Ástþórsdóttir      Ganghestar / Málning    Sóllilja frá Álfhólum            6,50
 17. Sigurður Vignir Matthíasson     Ganghestar / Málning    Kall frá Dalvík            6,50
 18. Þórdís Erla Gunnarsdóttir       Auðsholtshjáleiga       Glefsa frá Auðsholtshjáleigu            6,30
 19. Eyvindur Mandal Hreggviðsson    Auðsholtshjáleiga       Hersveinn frá Lækjarbotnum            6,30
 20. Sigursteinn Sumarliðason        Spónn.is        Alfa frá Blesastöðum            6,30
 21. John Kristinn Sigurjónsson      Hrímnir Indía frá Álfhólum            xx