þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árni Björn reið á vaðið!

26. júlí 2019 kl. 10:00

Árni Björn Pálsson

Fyrsti þáttur Fjórtakts kominn í loftið - spennandi tímar í hestafjölmiðlun!

 

 

Á dögunum hóf göngu sína hlaðvarps þáttur tileinkaður íslenskri hestamennsku. Þættinum er ætlað að ná til allra þeirra sem áhuga hafa á hestamennsku, sama hvort um atvinnu eða áhugamál sé að ræða. Hugmyndin hafði lengi verið hugarfóstur tveggja ungra kvenna, þeirra Bjarneyjar Önnu Þórsdóttur og Thelmu Harðardóttur. Í samstarfi við Eiðfaxa hefur sú hugmynd nú orðið að veruleika.

Það er von okkar að hlaðvarpið verði skemmtileg viðbót við þá umfjöllun um Íslenska hestinn sem nú þegar fer fram í fjölmiðlum. Þátturinn ber heitið Fjórtaktur og er það tilvísun í eina af gangtegundum íslenska hestsins, töltið.

Í Fjórtakti verður fjölbreyttum viðfangsefnum gefið kastljós og rætt við áhugavert fólk víðsvegar að úr hreyfingunni. Hægt er að fylgjast með útgáfu þáttanna og efnistökum á heimasíðu Eiðfaxa og tengdum miðlum. Einnig má fylgjast vel með á síðu Fjórtakts á Facebook og Instagram.

Fyrsti þátturinn er nú kominn inn á allar helstu hlaðvarpsveitur. Fyrsti viðmælandi þáttarins er Árni Björn Pálsson. Í þættinum segir hann meðal annars frá upphafi hestamennsku sinnar hjá afa sínum og ömmu á Teigi í Fljótshlíð og unglingsárunum í Fáki, hvernig hann nálgast uppbyggingu þjálfunarhrossa sinna og undirbúning hans og Flaums fyrir komandi heimsmeistaramót.

Þáttinn má nálgast með því að ýta á vefslóðina hér fyrir neðan.

https://open.spotify.com/show/3w933aGHsi4JKb5SuDcGNL?si=tVTRnY6ZSPS_c2KwC2OIKg