mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árni Björn Íslandsmeistari í tölti

23. júlí 2012 kl. 08:50

Stormur frá Herríðarhóli, knapi Árni Björn Pálsson. Myndin er tekin á Reykjavíkurmóti 2012.

Stormur frá Herríðarhóli hestur mótsins

Stormur frá Herríðarhóli er hestur Íslandsmótsins í hestaíþróttum 2012. Hann toppaði á hárréttu augnabliki og varð langefstur í A úrslitum í tölti eftir þæfing upp úr B úrslitum. Knapi á Stormi og Íslandsmeistari í tölti 2012 er Árni Björn Pálsson.

Árni Björn og Stormur urðu Reykjavíkurmeistarar í tölti í vor og þá varð ljóst að Stormur er einn af meiri háttar tölturum landsins og efni í sigurvegara. Árni Björn hefur löngu sannað að hann er knapi sem getur höndlað hvaða titil sem er.

Á LM2012 var Stormur þó ekki alveg í essinu sínu, Árni Björn náði að komast í B úrslit í töltinu en það var tengdafaðir hans Sigurbjörn Bárðarson á Jarli frá Mið-Fossum sem vann þau.

Á Íslandsmótinu á Vindheimamelum var Stormur heldur ekki almennilega kominn í gang í forkeppninni og hafnaði í B úrslitum. En nú tókst Árna Birni að vinna þau örugglega. Í A úrslitum fóru þeir félagar hins vegar á kostum og hreinlega rúlluðu keppinautum sínum upp. Fengu 8,83 í einkunn en næsti keppandi var með 8,50. Feikna rúmur og glæsilegur hestur.

Stormur er undan Aroni frá Strandarhöfði og Heru frá Herríðarhóli, sem meðal annars er móðir Hágangs frá Narfastöðum. Stormur er með 8,19 í aðaleinkunn í kynbótadómi, þar af 9,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir frampart.


1 Árni Björn Pálsson / Stormur frá Herríðarhóli 8,83

2 Hinrik Bragason / Smyrill frá Hrísum 8,50

3 Sigurbjörn Bárðarson / Jarl frá Mið-Fossum 8,44

4 Jakob Svavar Sigurðsson / Árborg frá Miðey 8,28

5 Viðar Ingólfsson / Vornótt frá Hólabrekku 8,28

6 Artemisia Bertus / Óskar frá Blesastöðum 1A 8,11