laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arna Silja hlaut Eiðfaxabikarinn

24. apríl 2015 kl. 23:10

Arna Silja Jóhannsdóttir, handhafi Eiðfaxabikarsins árið 2015.

Skeifudagurinn haldinn hátíðlegur á Hvanneyri.

Hinn árlegi Skeifudagur var haldinn hátíðlegur á sumardaginn fyrsta á Hvanneyri. Nemendur skólans sýndu þar afrakstur sinn og veitt voru verðlaun fyrir framúrskarandi árangur. Arna Silja Jóhannsdóttir hlaut Eiðfaxabikarinn, en hann er veittur fyrir besta árangur í bóklegu námi í Hrossarækt. Jón Óskar Jóhannesson fór klyfjaður verðlaunum heim.

"Mikið var um dýrðir og mikill mannfjöldi samankominn til þess að fylgjast með nemendum uppskera árangur erfiðis vetrarins. Skeifudagurinn er mikill hátíðisdagur hestamanna á Hvanneyri enda eru þar samankomnir nemendur á búfræðibraut og í háskóladeild auk fjölda nemenda úr hinu vinsæla námi endurmenntunardeildar skólans sem nefnist Reiðmaðurinn," segir á vefsíðu LbHÍ. "Um morguninn fóru fram forkeppnir, bæði nemenda í staðarnámi og í fjarnámi. Eftir hádegið var sýning nemenda á öðru ári búfræðibrautarinnar. Þar sýndu þau unghross sem þau hafa tamið frá því í janúar sem og eldri hross sem þau hafa þreytt próf á í knapamerkjunum. Var það mál manna að sýningin hafi tekist afar vel, vinnubrögð nemendanna verið kennaranum til sóma og að skólinn geti verið stoltur af framlagi sínu til hestamennskunnar í landinu. Að sýningaratriðinu loknu fóru fram úrslit úr þeim forkeppnum sem haldnar voru fyrir hádegið.

Sigurvegari í fjórgangskeppni nemenda á búfræðibraut hlaut Gunnarsbikarinn, farandbikar sem er gefinn af Bændasamtökum Íslands til minningar um Gunnar Bjarnason. Úrslit í keppninni um Gunnarsbikarinn voru sem hér segir:

 1. Jón Óskar Jóhannesson
 2. Bragi Viðar Gunnarsson
 3.  Ágústa Rut Haraldsdóttir
 4.  Axel Örn Ásbergsson
 5. Berglind Ýr Ingvarsdóttir

Nemendur í Reiðmanninum, tveggja ára námskeiðsröð á vegum endurmenntunardeildar skólans, kepptu um Reynisbikarinn sem er gefinn af upphafsmanni námsins, Reyni Aðalsteinssyni og fjölskyldu hans. Reiðmaðurinn er kenndur í hópum víðsvegar um landið og hafði hver hópur rétt til að senda þrjá fulltrúa í keppnina. Að þessu sinni voru 11 þátttakendur úr hópum frá Selfossi, Sprettshöllinni, Mosfellsbæ og Víðidal. Úrslit í keppninni urðu sem hér segir:

 1. Hannes Ólafur Gestsson - Víðidal
 2. Hallgrímur Óskarsson - Selfossi
 3. Margrét Helga Vilhjálmsdóttir - Víðidal
 4.  Gyða Árný Helgadóttir - Selfossi
 5.  Þorvarður Björgúlfsson - Mosfellsbæ

Mikil spenna ríkti meðal nemenda að vanda um hver skyldi hljóta hina eftirsóttu Morgunblaðsskeifu. Verðlaunin eru veitt þeim nemenda sem bestum árangri hefur náð í verklegum prófum hrossaræktaráfanga búfræðibrautarinnar. Að þessu sinni gáfu niðurstöður prófanna eftirfarandi úrslit:

 

 1. Jón Óskar Jóhannesson
 2.   Bragi Viðar Gunnarsson
 3.  Axel Örn Ásbergsson
 4.  Ágústa Rut Haraldsdóttir
 5.  Berglind Ýr Ingvarsdóttir

Að auki veitti Félag tamningamanna ásetuverðlaun félagsins þeim nemanda búfræðibrautarinnar sem þótti sýna hvað besta ásetu og reiðmennsku. Að þessu sinni var það Jón Óskar Jóhannesson sem hlaut þá viðurkenningu enda hafði hann staðið sig afar vel bæði við frumtamningar sem og þjálfun á eldri hesti og uppskar hann ávöxt erfiðisins þennan dag með því að hreppa flest þau verðlaun sem í boði voru. Þess má jafnframt geta að Jón Óskar lauk námi í Reiðmanninum fyrir ári síðan en fyrir tveimur árum bar hann sigur úr býtum í keppninni um Reynisbikarinn og hefur því náð að festa hönd á alla farandgripi skólans í hrossaræktaráföngum.

Tímarit hestamanna, Eiðfaxi, veitti jafnframt viðurkenningu þeim nemenda sem skarað hafði framúr í hestatengdu bóklegu námi búfræðibrautarinnar. Að þessu sinni var það Arna Silja Jóhannsdóttir sem hlaut Eiðfaxabikarinn.

Að lokum voru veitt framfaraverðlaun Reynis, sem gefin eru af hestamannafélagi nemenda við LbhÍ í minningu Reynis Aðalsteinssonar, fyrrum kennara við skólann og frumkvöðuls í reiðkennslu hér á landi. Að þessu sinni var það Ingvi Þór Bessason sem hlaut þessa verðskulduðu viðurkenningu sem veitt er þeim nemenda sem þótt hefur sýna hvað mestar framfarir í náminu."