þriðjudagur, 25. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arna Björg á Austurlandi

jens@vb.is
11. júlí 2012 kl. 12:24

Arna Björg Bjarnadóttir

Arna Björg Bjarnadóttir frá Ásgeirsbrekku í Skagafirði er ekki af baki dottin þótt starfsemi Söguseturs íslenska hestsins liggi í dvala. Hún reif starfsemi þess upp úr dróma fyrir nokkrum árum eins og lesendum Hestablaðsins ætti að vera í fersku minni.

Arna Björg er nú að undirbúa hestaferðir austur í Fljótsdal á Héraði ásamt

manni sínum, Steingrími Karlssyni (Denna kvikmyndatökumann), og þeim hjónum á Brekku í Fljótsdal, Hallgrími Þórhallssyni og Önnu Bryndísi Tryggvadóttur. 

Þau standa nú í stórræðum ásamt herskara af börnum og tveim erlendum aðstoðarkonum og hafa safnað saman áttatíu ferðahrossum. 

Flestar ferðirnar sem bókaðar hafa verið eru í samstarfi við Íshesta. Undirbúa þarf hrossin vel fyrir ferðirnar, járna þau og þjálfa, en flest eru staðin í vetur. Steingrímur segir að sex ferðir séu á dagskrá í sumar,fjögurra og upp í níu daga ferðir. 

„Engin þessara ferða er eins, við förum mismunandi leiðir. Lengsta ferðin er héðan úr Fljótsdal og niður í Hornafjörð. Það er skemmtilegra að fara nokkrar ólíkar leiðir en jafnframt mikil áskorun. Síðasta ferðin verður spennandi tel ég. Það er eins konar „survivor“ ferð þar sem okkur er í raun borgað fyrir að gera sem minnst og leyfa fólkinu að bjarga sér og komast af í náttúrunni.“

Hestablaðið mun segja frekar frá afdrifum þátttakenda í „survivor“ í haust og vonandi verða það eingöngu skemmtilegar fréttir.