mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árbæjarhjáleiga býður heim

odinn@eidfaxi.is
26. ágúst 2016 kl. 09:50

Jarl frá árbæjarhjáleigu.

Næstkomandi sunnudag, 28. ágúst verður opið hús í Árbæjarhjáleigu og þangað eru allir velkomnir sem hafa áhuga á.

Kaffi verður á könnunni á Árbæjarhjáleigu og í hesthúsinu verður úrval af hrossum til sölu. Að sjálfsögðu eru þau vel ættuð - allt frá ótömdum tryppum uppí tamin hross.

Hryssur, geldingar og stóðhestar. Feður þessarra hrossa eru meðal annars : Jarl frá Árbæjarhjáleigu, Stáli frá Kjarri, Kiljan frá Steinnesi, Krákur frá Blesastöðum, Vilmundur frá Feti, Arður frá Brautarholti, Hrímnir frá Ósi, Eldjárn frá Tjaldhólum, Vígar frá Skarði og fleiri flottir gæðingar. Góð verð eru á gripunum í tilefni dagsins.

Í Árbæjarhjáleigu fæðast að meðaltali 18 folöld. Fyrstu verðlaunamerar eru ellefu talsins. Árbæjarhjáleigu ræktunin hófst 1992 þegar Kristinn og Marjolijn flytja að Árbæjarhjáleigu 2. Hrossaræktin í Skarði hefur hinsvegar staðið frá um 1975 en telur Kristinn að mestur kraftur í ræktuninni hafi komið með Ófeigi um 1985.

Ófeigur frá Flugumýri og Þokki frá Garði eru hestar sem hafa sett hvað mest mark á hrossaræktina í Árbæjarhjáleigu. Marjolijn kom með tvær Þokkadætur inn í ræktunina á sínum tíma og önnur þeirra er einmitt amma Jarls, Fána frá Hala. Jarl sameinar þessa tvo ættboga á skemmtilegan hátt.