sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áramótabrenna við hesthúsahverfið á Heimsenda

31. desember 2009 kl. 17:21

Mynd: www.andvari.is

Áramótabrenna við hesthúsahverfið á Heimsenda

Bæjarráð Kópavogs, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Heimbrigðiseftirlitið og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa heimilað að áramótabrenna verði staðsett við efstu húsin á Heimsenda við reiðstíginn sem liggur frá hesthúsasvæðinu að Elliðavatni. Brennan er aðeins í 140 metra fjarlægð frá húsunum, sem flest eru með hestum í. Enginn þessara opinberu aðila bað um umsögn Andvara áður en leyfið var veitt og því var það ekki fyrr en hleðsla brennunnar hófst sl. mánudag að hestamenn vissu af þessari ákvörðun.

Þá strax þá hafði formaður Andvara samband við leyfisveitendur og bað um að leyfið yrði afturkallað eða brennan færð lengra í burtu, en enginn þessara opinberu aðila varð þeirri beiðni, því skv. reglugerð er brennan ekki á hættusvæði né of nálægt byggð. Formaður Andvara sat fund í gær 30. des. með bæjarstjóra, bæjarverkfræðingi og bæjarlögmanni Kópavogs og fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins ásamt leyfishöfum til að reyna að fá brennuna flutta á annan stað, en án árangurs.

 Rök okkar hestamanna eru þau helst að brennan er komin inn á umferðarsvæði hestamanna og inn fyrir hesthúsabyggðina og mjög nálægt hesthúsunum sjálfum eða 140 metra frá næsta húsi. Hestar eru mjög viðkvæmir fyrir reyk og lykt svo ekki sé talað um blossa og hávaða, ásamt því að svona samkomu (áramótabrennu) fylgir mikil umferð fólks og bíla. Héraðsdýralæknir deilir áhyggjum okkar Andvaramanna á þessum hræðilegu mistökum yfirvalda að heimila brennu svo nálægt hesthúsum.


Vegna þess að yfirvöld vilja ekki afturkalla leyfið, þrátt fyrir þrábeiðni þar um, er til skoðunar að  leita til Sýslumanns og óska eftir lögbanni, á að kveikt verði í þessari áramótabrennu, einkum vegna þess að bæjaryfirvöld og leyfishafar þver-neituðu að færa hana og þetta er því neyðarúrræði til að vernda hestana sem komnir eru í hús.

 

Pétur A. Maack

Formaður Andvara