fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Andvarasonur athygli verður

2. júní 2011 kl. 08:50

Kolfinnur frá Efri-Gegnishólum, knapi Bergrún Ingólfsdóttir.

Kolfinnur frá Efri-Gegnishólum

Stóðhestar undan Andvara frá Ey eru ekki á hverju strái. Nefna má Kjarna frá Þjóðólfshaga og Flugni frá Ketilsstöðum af þeim sem enn eru hér á skerinu. Flestir aðrir eru farnir utan.

Það er því alltaf ánægjulegt þegar krælir á stóðhestsefni undan jafn góðum hesti og  Andvari er, rúmur töltari og traustur í lund. Á Sörlastöðum kom fram 6 vetra foli, Kolfinnur frá Efri-Gegnishólum, setinn af ungri stúlku, Bergrúnu Ingólfsdóttur. Hesturinn kom afar vel fyrir og var hóflega krafinn eins og góðum reiðmanni sæmir.

Hann er undan Kolfreyju frá Sæfelli, Stígsdóttur frá Kjartansstöðum. Móðir Kolfreyju er Perla frá Hvoli, sem var fræg í Stokkseyrarhreppi og Flóa. Undan henni er einnig Hrafntinna frá Sæfelli, móðir Ægis frá Litlalandi og fleiri fyrstu verðlauna hrossa.

Kolfinnur var sýndur sem klárhestur, fékk 8,5 fyrir tölt og brokk og 9,0 fyrir fegurð í reið. Hann kemur fyrir sem skemmtileg blanda af Andvara og Stíg og á örugglega eftir að bæta í einkunnir þegar fram í sækir. Spennandi stóðhestur. Eigandi hans og ræktandi er Bragi Birgisson á Efri-Gegnishólum.