mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áminning um smitvarnir

20. september 2012 kl. 15:06

Áminning um smitvarnir

Í tilkynningu frá Matvælastofnun eru hestamenn minntir á að gæta vel að smitvörnum við utanferðir:

 
"Í kjölfar faraldurs smitandi hósta í íslenska hrossastofninum var skerpt á reglum um smitvarnir og m.a. komið upp móttöku á óhreinum reiðfatnaði og –skóm í rauða hliðinu í Leifsstöð. Fatahreinsunin Fönn tekur við fatnaðinum hjá tollvörðum, sótthreinsar eftir fyrirmælum Matvælastofnunar og sendir til eigenda.
 
Góð reynsla er komin á þetta fyrirkomulag en athygli vekur að nýting af hálfu atvinnureiðmanna og reiðkennara er minni en reiknað hafði verið með.
 
Bannað er að koma með óhreinan reiðfatnað og -skó til landsins sem og annan fatnað sem gæti borið með sér smitefni úr hrossum erlendis. Gæta þarf sérstaklega að yfirhöfnum og skóm í því sambandi. Reiðhanskar eru í sérstökum áhættuflokki og því er bannað með öllu að koma með notaða reiðhanska til landsins. Innflutningur á notuðum reiðtygjum, þ.m.t. mélum, sem og öðrum búnaði sem notaður er í hestamennsku er óheimill. 
 
Reiðkennarar, knapar og aðrir sem koma að hestamennsku erlendis – og eru oft í nokkurri tímaþröng á ferðum sínum - eru sérstaklega hvattir til að nýta sér þjónustu Fatahreinsunarinnar Fannar á Keflavíkurflugvelli enda er það ein öruggasta leiðin til að hindra að óhreinn fatnaður beri smit í umhverfi hesta hér á landi.  Að öðrum kosti þarf að vera búið að þvo fatnaðinn í þvottavél og þurrka fyrir komuna til landsins. Skófatnað og stígvél þarf auk sápuþvottar að úða með virkoni eða öðru sambærilegu sótthreinsandi efni og þurrka fyrir komuna til landsins."