mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Alur stóð sig alveg frábærlega"

23. júlí 2012 kl. 12:20

"Alur stóð sig alveg frábærlega"

"Alur stóð sig alveg frábærlega, þó það sé alltaf einhvað sem má gera betur, þá er ég alveg rosalega ánægður með þetta. Að sigra fimmgangsúrslit er frábær árangur, þetta er ein erfiðasta greinin því þetta eru svo margir þættir sem þarf að vera í lagi og hann stóðst þær raunir allar vel," segir Jakob S. Sigurðsson tvöfaldur Íslandsmeistari en hann og Alur frá Lundum II sigruðu bæði fimmganginn og slaktaumatöltið. "Slaktaumatöltúrslit eru kannski léttustu úrslitin en þetta eru þrjú atriði og minna riðið í þeim úrslitum en öðrum svo ég held að hann hafi ekkert fundið fyrir því. Hann er í góðri þjálfun og góðu pústi svo hann hafði ekki mikið fyrir þessu."

Jakob hlaut flestu plúsana fyrir góða reiðmennsku á mótinu eða alls níu talsins "Það var bara gaman að þessu. Ég reyni að leggja mikla áherslu á góða reiðmennsku en þó viljum við náttúrulega sjá afköst og árangur og ég legg kannski mest upp úr því. Reyni síðan að hafa reiðmennskuna eins fallega og ég get," segir Jakob.
 
Á næsta ári er heimsmeistarmótið í Berlín og eins og svo margir aðrir stefnir Jakob á úrtöku. "Ég stefni á að fara með Al í fmmgangsgreinarnar. Ég er að reyna að púsla þessu öllu saman og reikna svona frekar með því að maður stilli honum upp í fimmgang, slaktaumatölt og þá gæðingaskeiðið líka. Ég held að hann geti gert ágætis hluti þar."