miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt það besta sem í boði er á stórsýningunni „Orri í 25 ár“-

14. febrúar 2011 kl. 14:04

Allt það besta sem í boði er á stórsýningunni „Orri í 25 ár“-

Þann 26. mars næstkomandi mun stórsýningin „Orri í 25 ár“ fara fram í Ölfushöll. Sýningunni er ætlað að spanna sögu og áhrif Orra frá Þúfu á íslenska hrossarækt. Ljóst er að áhrif Orra eru mikil en um það bil helmingur allra sýndra hrossa undan Orra hafa náð fyrstu verðlaunum.

Á góðviðrisdegi í síðustu viku keyrði Eiðfaxi fram á Gunnar Arnarsson, en hann er sýningastjóri „Orra í 25 ár“ ásamt Guðmundi Björgvinssyni.  Gunnar var á útreiðum á Orrasyninum og glæsihestinum Gára frá Auðsholtshjáleigu. Því var ekki úr vegi að spyrja hann aðeins um sýninguna.

 „Orri verður 25 vetra nú í vor og það er því skemmtilegt að halda sýningu á meðan hann er í fullu fjöri og afkvæmi hans út um alla velli,“ segir hann þegar hann er inntur eftir ástæðum þess að sýningin sé haldin.

Gunnar segir að áhorfendur geti búist við mikilli breidd af hrossum undan og út af Orra. „Við munum sýna það besta sem í boði er. Mikill hugur er í bæði eigendum hrossa og knöpum, flest allir bestu knapar landsins munu mæta með hross í sínu besta formi.“

Heiðursgestir sýningarinnar verða Indriði Ólafsson á Þúfu og Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki. Gunnar reiknar með að 60-80 hross taki þátt í sýningunni. „Afkvæmi flest allra heiðursverðlauna- og fyrstu verðlauna hesta munu taka þátt. Afkvæmi dætra Orra koma mikið við sögu og margir hestar sem eru beint undan honum.“

Hann nefnir á nafn nokkra hesta sem munu stíga á stokk; Orm frá Dallandi, Jarl frá Miðkrika, Álf frá Selfossi, Þóru frá Prestbæ og Ölfu frá Blesastöðum og er því ljóst að stórsýningin er viðburður sem enginn hestaáhugamaður má láta fram hjá sér fara.

Spurður frétta af Orra segir Gunnar hann vera í fjörugan. „Hann fyljaði 53 merar af 60 í sumar. Hann mun að sjálfsögðu koma á sýninguna.“

Forsala á miðum á „Orri í 25 ár“ hefst um mánaðarmótin en reikna má með að 800-900 miðar verði í boði.