fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt gekk upp á Íslandsmótinu -viðtal við Hörpu Sigríði

8. desember 2011 kl. 13:30

Allt gekk upp á Íslandsmótinu -viðtal við Hörpu Sigríði

Harpa Sigríður Bjarnadóttir varð í sumar Íslandsmeistari í fjórgangi barna á hryssunni sinni Trú frá Álfhólum. Hún sinnir hestamennskunni af mikilli atorku, þjálfar alla sína hesta, lærir á námskeiðum, keppir á mótum og stóð meira að segja fyrir einu slíku sl. vetur með vinkonu sinni Súsönnu Katarínu. Harpa Sigríður ætlar að nema Hólaskóla þegar hún fær aldur til og vill í framtíðinni gera hestamennsku að atvinnu sinni. Hún stefnir því á að stofna ræktunarbú.

 
Á Uppskeruhátíð hjá hestamannafélaginu sínu, Herði í Mosfellsbæ, fékk Harpa Sigríður tvær viðurkenningar – hún þótti sýna mestu framfarir á keppnisnámskeiði og var jafnframt kjörinn knapi ársins í barnaflokki. Eiðfaxi tók hinn þrettán ára gamla afreksknapa á tal að því tilefni:
 
-Hvenær og hvernig byrjaðir þú að stunda hestamennsku? 
Frændfólk okkar var í hestamennskunni þegar ég var lítil og við bjuggum þá hálfpartinn uppí sveit og þau komu stundum heim til okkar ríðandi og þá fyrst held ég að áhuginn hafi kviknað. Ég byrjaði á því að fara á reiðnámskeið hjá Berglindi þegar ég var 6 ára og fór á það tvö sumur í röð og smátt og smátt jókst áhuginn og þegar ég var 8 ára ákváðum við fjölskyldan að kaupa okkar fyrstu hesta.
 
-Hvað finnst þér skemmtilegast við hestamennskuna? 
Nærveran við hestana, þetta eru svo æðislegar skepnur.
 
-Hvað ber að hafa í huga til að ná góðum árangri í hestamennsku? 
Að vera duglegur að æfa sig, gefa sér tíma, hafa góðan þjálfara eiga í góðu sambandi við hann. Það þarf að setja sér markmið, fylgja þeim eftir og vera óhræddur við að biðja um hjálp. Síðast en ekki síst er mikilvægt að aðstandendur styðji vel við bakið á manni.
 
- Hvenær kepptir þú í fyrsta sinn? 
Ég byrjaði að keppa í pollaflokki veturinn 2008 en fyrsta alvöru keppnin mín var úrtakan fyrir Landsmótið 2008.
 
-Afhverju er gaman að keppa? 
Stemningin sem myndast á mótunum er rosalega skemmtileg.
 
- Gaman væri að heyra aðeins um keppnishestana þína?
Trú frá Álfhólum og Mammon frá Stóradal eru í minni eigu en Reynir Örn Pálmason lánaði mér Gust frá Margrétarhofi til þess að keppa á Landsmóti.  Ég þjálfa hestana mína alfarið sjálf.
Trú er rosa yfirveguð og góð í umgengni en svo þegar maður fer á bak henni þá breytist hún í algert mótorhjól, hún er bæði rúm og viljug en er alls ekki fyrir alla. Það hefur gengið á ýmsu hjá okkur Trú í sumar. Hún getur verið mjög erfið við mig og þá gengur ekkert, en ef hún er í stuði þá getur hún mikið. Íslandsmeistaratitillinn í sumar kom mér rosalega á óvart því allt gekk vonum framar og það var ekkert smá gaman. Nú er Trú í folaldseignum.
Mammon er aftur á móti rosa spenntur og alltaf vakandi fyrir öllu og í reið er mikill dagamunur á honum, stundum er hann mjög viljugur og stífur en stundum mjög rólegur og fínn. Ég stefni á að keppa áfram á Mammon í fimmgang og A-flokki.
En svo var ég að fá nýjan hest sem heitir Sváfnir frá Miðsitju. Hann er 7 vetra undan Hágangi frá Narfastöðum og ég stefni á að keppa á honum í unglingaflokki og sömuleiðis vonandi á Landsmót.
 
-Ertu eitthvað í hrossarækt? Pælir þú eitthvað í ræktun og stóðhestum?  
Já, við fengum eitt slysafolald sumarið 2010 og kviknaði þá áhuginn hjá mér og mömmu. Síðan ákváðum við að halda Trú undir Víði frá Prestsbakka og reiðhryssu frá okkur undir Gust frá Margrétarhofi, en við eigum smá land uppí Kjós sem heitir Litla Þúfa. 
 
- Hverjir eru bestu hestar sem þú hefur setið? 
Baldvin frá Stangarholti og Gustur frá Margrétarhofi en þó eru þeir gjörólíkir.
 
-Hvaða hest hefðir þú viljað taka heim með þér af síðasta Landsmóti?
Spuni frá Vesturkoti, allar gangtegundir góðar og svo geislar hann af orku og vilja.
 
-Hver er flottasti töltari sem þú hefur séð?
 Ég gæti talið upp alveg endalaust, það er svo mikið af flottum tölthestum en Kjarnorka frá Kálfholti og Alfa frá Blesastöðum standa upp úr.
 
-Hvaða klárhestur finnst þér standa upp úr í keppni? 
Mér fannst Sylvía Sigurbjörnsdóttir og Þórir frá Hólum eiga mjög flotta sýningu á Íþróttamóti Harðar og Dreyra.
 
-En hvaða alhliðahestar standa upp úr að þínu mati? 
Elrir frá Leysingjastöðum og Sturla frá Hafsteinsstöðum.
 
-Áttu þér fyrirmynd í hestamennskunni? 
Reynir Örn [Pálmason] er mjög flottur reiðmaður. Hann kemur vel fram við hestana og af virðingu og hann hefur hjálpað mér rosalega mikið með mína hesta.