miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt á fullu á Ingólfshvoli

odinn@eidfaxi.is
11. október 2013 kl. 10:23

Ingólfshvoll í byggingu

Miðstöð um íslenska hestinn að rísa í Ölfusinu.

Framkvæmdir eru fullum gangi á Ingólfshvoli, en stefnt er á að hefja rekstur þar í desember. Á staðnum er að rísa hestatengd ferðamannamiðstöð þar sem boðið verður upp á hestasýningar einu sinni á dag þar sem saga hestsins frá upphafi Íslandsbyggðar er sögusviðið.

Í samtali við forsvarsmenn fyrirtækisins segja þeir þetta eigi að vera ævintýraheimur um íslenska hestinn fyrir ferðamenn þar sem í boði er kynnisferð um aðstöðuna þar sem fólk getur komist í snertingu við hross og séð tamningarmenn að störfum. Einnig verður settur upp 40 metra langur og 5 metra breiður skjár sem verður leikmynd sýningarinnar, en þar geta gestir horft á kynningarmyndband um íslenska hestinn þegar sýningarnar eru ekki í gangi.

Verið er að breyta veitingaraðstöðunni og þar hefur öllum fyrri innréttingum verið rutt út og nýtt útlit að innan sem utan er að verða til. Minnjagripaveslun og Bístróveitingarstaður verður þar opin alla daga, allt árið um kring.

"Við stefnum á að gera þetta að áfangastað ferðamanna í fremstu röð og framtíðarsýnin er að gera Ingólfshvol að föstum punkti fyrir ferðamenn líkt og Bláa lónið og fleiri slíkir staðir eru orðnir" segir Guðmundur Ólason einn af stjórnarmönnum fyrirtækisins.

"Meistaradeildin og hefðbundnar reiðhallarsýningar verða hér áfram, enda viljum við vera miðstöð fyrir alla sem unna íslenska hestinum" bætir Guðmundur við en stefnan er á að rekstur verði kominn á fullt í byrjun nýs árs.