mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allir kynbótadómar ársins ólöglegir

6. ágúst 2010 kl. 13:34

Gleymdist að staðfesta breytingar á reglum

Allir kynbótadómar ársins eru ólöglegir samkvæmt strangasta lagabókstaf. Einnig fyrirhuguð kynbótasýning á Hellu þar sem gera á tilraun með kynbótadóma á hringvelli að hluta. Einnig Náttfaravöllurinn á Melgerðismelum og þar með allir dómar á honum. Einnig allir dómar í fyrra á þeim hrossum sem voru á 23 mm breiðum skeifum, en þá voru reglur rýmdar varðandi skeifnastærð.

Glöggir hestamenn hafa bent á það á spjallinu á Hestafréttum að í gildi er reglugerð um upprunaland íslenska hestsins og dómkvarða á kynbótahrossum frá 2002. Breytingar sem komu til framkvæmda á þessu ári og síðasta hafa hins vegar ekki farið lögformlega leið í kerfinu. Það er að segja: Þær hafa ekki verið bornar undir landbúnaðarráðherra til samþykkis, eins og kveðið er á um í reglugerðinni, og ekki auglýstar eins og skylt er um breytingar á lögum og reglugerðum. Þetta þýðir að ef einhver, einn eða fleiri, kærir kynbótadóma á hrossum sínum frá því í sumar, gæti hugsanlega farið svo að draga þurfi breytingarnar til baka og reikna alla dóma upp á nýtt, út frá þeim reglum sem í gildi eru frá 2002.

Í vor komu til framkvæmda breytingar á vægjum á einstökum eiginleikum og þröskuldar voru settir í einkunnagjöf nokkurra eiginleika. Samkvæmt upplýsingum úr landbúnaðarráðuneytinu barst engin formleg beiðni áður en kynbótasýningar ársins hófust um að þær breytingar yrðu staðfestar með formlegum hætti. Þær hafa ekki borist enn.

Útkoma dóma með tilkomnum breytingum hefur fallið í misjafnan jarðveg og margir hestseigendur eru ósáttir. Sem eykur líkurnar á að einhver kæri. Spurningin er hins vegar hvort sú kæra á greiða leið inn í kerfið þar sem engin fordæmi eru fyrir uppákomu sem þessari. Líkur eru á að að málið gæti flækst talsvert fyrir mönnum áður en það fengi afgreiðslu.

Sérfræðingar sem Hestar og hestamenn hefur haft samband við og eru tengdir málinu eru ekki sammála um hvernig meta beri stöðuna og vilja ekkert láta hafa eftir sér að svo stöddu. Á meðan einn telur skynsamlegast að fresta tilraunum og draga breytingar til baka, leggur annar til að menn haldi sömu stefnu og meti síðan stöðuna í haust. Enn aðrir benda á að framkvæmdavaldið í leiðbeiningaþjónustunni hafi í raun alltaf verið á hendi hrossaræktarráðunauts og fagráðs (kynbótanefndar), þótt nú megi finna lagabókstaf um annað.

Það er hins vegar ljóst að lítill tími er til stefnu varðandi síðustu kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum við Hellu, þar sem hringvallar-tilraunin er fyrirhuguð. Til stóð að dómar á þeirri sýningu yrðu fullgildir og reiknaðir inn í kynbótamatið. Hæpið er að klára sýningar ársins sem standa tæpt „lagalega séð“ nema línur verði skýrðar á allra næstu dögum.