sunnudagur, 21. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aldur skiptir ekki sköpum

20. mars 2015 kl. 15:14

Þórður Þorgeirsson ásamt Josi Maier, en hann sigraði örugglega í flugskeiði á Evrópumeistaramótinu á ís í Berlín á dögunum. Mynd/Auðólfur Þorsteinsson

Íslenskir fulltrúar léttir í bragði á Evrópumeistaramótinu á ís í Berlín.

Glæsileg tilþrif sáust á ísilagðri brautinni á Horst-Dohm Eisstadion í Berlín þegar Evrópumeistaramót íslenska hestsins á ís, IceHorse, var haldið dagana 6. og 7. mars síðastliðinn. Mótið fangaði athygli fjölmargra gesta og fjölmiðla og sýndi það sig að áhugi íslenska hestinum fer ört vaxandi í Berlín og nágrenni.

Fjallað er um mótið í 3. tbl. Eiðfaxa sem kemur út í næstu viku.


Þórður Þorgeirsson var einn keppenda mótsins, en hann fór með sigur af hólmi í 100 metra flugskeiði á Sel frá Hrafnsholti.

Þórður fór síðan létt með að svara áhugasömum fréttamönnum á þýskunni þrátt fyrir að hafa einungis starfað í Þýskalandi í þrjú ár. Þakkaði hann Josi Maier, unnustu sinni, þýskukunnáttuna, en saman starfa þau á Gestüt Norderheide reiðskólanum rétt fyrir utan Hamborg. Þórður hefur keppt á mörgum mótum í Þýskalandi á síðustu árum en þetta var í fyrsta sinn sem hann keppir í Berlín. Léttur í bragði sagði hann fréttamönnum að segja mætti að aldurinn skipti ekki sköpun þegar kæmi að hestaíþróttum. ,,Þegar maður hefur áhugann og ánægjuna af hestamennsku getur maður endalaust riðið á íslenskum hesti," sagði Þórður og bætti við:,,Þetta var eins og sumarveður á Íslandi og stemning hér var virkilega góð.“

Hægt er að gerast áskrifandi að Eiðfaxa í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is