fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aldrei ætlunin að þjösna breytingum í gegn

20. febrúar 2012 kl. 17:15

Kristinn Guðnason, hrossabóndi á Árbæjarhjáleigu og formaður Félags hrossabænda.

Mistök að útskýra málið ekki betur í byrjun segir Kristinn Guðnason

Það var aldrei ætlun fagráðs að þjösna breytingum í gegn án þess að þær fengju umfjöllun og þær yrðu prófaðar í reynd. En helstu mistök okkar voru kannski að láta það ekki koma nægilega skýrt fram í byrjun,“ segir Kristinn Guðnason, formaður fagráðs í hrossarækt.

Það var alltaf upplegg okkar að kynna hugmyndina um breytingarnar enn frekar á fundaferð okkar í vetur og fá þar fram skoðanir fólks og sjónarmið. Hugmyndin, eins og hún hefur verið kynnt er tillaga fagráðs, sem eflaust er hægt að útfæra betur. Og það þarf að gera í samráði við ræktendur og knapa. Allar hugmyndir hafa kosti og galla. Ég fyrir mína parta er sannfærður um að hugmynd fagráðs hefur fleiri kosti en galla og þjónar hagsmunum hrossaræktenda. Ef augljósir gallar koma í ljós í prufukeyrslu, sem er fyrirhuguð snemma í vor, þá er sjálfhætt og hugmyndin tekin af dagskrá,“ segir Kristinn.

Stjórn Félags hrossabænda mun funda með formönnum allra deilda félagsins á morgun, þriðjudaginn 21. febrúar og fagráð síðan á fimmtudaginn. Kristinn er formaður Félags hrossabænda, sem er búgreinarfélag BÍ, og þar með fagráðsins. „Við teljum nauðsynlegt í stöðunni að kynna betur fyrir formönnum deildanna hvað liggur að baki tillögu fagráðsins, ræða málin og kanna hver afstaða þeirra er. Þetta er greinilega viðkvæmara mál en við héldum, en ég vil árétta að allir fagráðsmenn voru mjög sammála um tillöguna og í fagráði sitja fulltrúar allra sem hagsmuna eiga að gæta. Og það er það sem við erum alltaf að reyna í góðri trú, að gæta hagsmuna hrossaræktenda“ segir Kristinn.

Þess má geta að fyrsti fundur í fundaferð Kristins og Guðlaus Antonssonar, hrossaræktarráðunauts, verður haldinn í Fáki fimmta mars, annar fundur á Selfossi sjötta mars og sá þriðji á Hvanneyri þann sjöunda. Dagsrá fundaferðarinnar verður auglýst nánar næstu daga.