sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ákvörðunin ekki stefnumarkandi fyrir 2-1 kerfi

20. desember 2011 kl. 13:08

Ákvörðunin ekki stefnumarkandi fyrir 2-1 kerfi

Landsmótið árið 2014 verður haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu og tveimur árum síðar verður það haldið á Vindheimamelum í Skagafirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Landsmóts og LH en ákvörðun þess efnis var tekin á fundi þeirra í gær.

 
Sterkara bakland í Skagafirði í þetta skipti
 
Forsendur ákvörðunar um að halda mótið á Gaddstaðaflötum 2014 voru að rétta þarf úr fjárhag Landsmóts ehf. „Við vitum ekki hvernig landsmótið í Reykjavík mun reynast, en við vitum hins vegar að við skuldum 20 milljónir króna. Við verðum að vinna okkur úr þeirri skuld. Mótin á Hellu hafa reynst stærst og fjölsóttust og þess vegna var sú ákvörðun tekin að fara næst með mótið þangað,“ segir Haraldur Þórarinsson formaður LH.   
 
Ákvörðunin að halda mót tvisvar í röð sunnan heiða er óneitanlega í takt við tillögu Landsmótsnefndar um að halda mótið tvisvar sinnum á Suðurlandi á móti hverju einu skipti á Norðurlandi, en í skýrslu nefndarinnar segir að færa megi fjárhagsleg og félagsleg rök fyrir því. Þetta gengur hinsvegar í bága við ályktun stjórnar Félags hrossabænda sem lögð var fyrir Búnaðarþing 2010. Í greinargerð sem lögð var fram í kjölfari formannafundar FHB kemur fram að tillaga Landsmótsnefndar sýndi félagslegt ósanngirni og ójöfnuð gagnvart hrossaræktendum á Norðurlandi.
 
Haraldur segir hins vegar að ákvörðunin nú sé ekki liður í því að færa tillöguna í reglu, en engu að síður verði fróðlegt að sjá hvernig dreyfingin mælist fyrir. 
 
Af ákvörðun stjórnarinnar að velja Vindheimamela í Skagafirði fram yfir Melgerðismela í Eyjafirði segir Haraldur felast í sterkari fjárhagslegum og félagslegum bakgrunni í Skagafirði. Þar hafi öll hestamannafélögin auk sveitafélaga í Skagafirði lýst yfir fjárhagslegum stuðningi á meðan slíkar fjárhagslegar skuldbindingar voru ekki fyrir hendi í Eyjafirði. „Möguleikarnir í Eyjafirði eru vissulega miklir. Þar er t.a.m. mikið val á gistirými og alþjóðlegur flugvöllur. Við erum því alls ekki að slá Eyjafjörð út sem landsmótsstað með þessari ákvörðun,“ áréttar Haraldur.
 
Landsmót í Reykjavík tilraunamót
 
Kristinn Guðnason er formaður Félags hrossabænda og sat jafnframt í Landsmótsnefnd. Hann álítur ákvörðun LH ekki stefnumarkandi fyrir tillögu Landsmótsnefndar um staðarval, en sér hana þó sem tilraun til að sjá hvernig slík dreyfing reynist.
 
„Menn mega ekki gleyma því að nú eru Landsmót tvö ár í röð, tíðni staða hefur því ruglast smávegis. Landsmótið í Reykjavík næsta sumar er því viss tilraun, könnun á því hvort áhorfendum hugnist staðurinn. Vonandi tekst það vel. En ef landsmót er markaðsgluggi fyrir íslenska hestinn hljótum við að leggja áherslu á að fá sem flesta gesti. Landsmót á Hellu hefur skilað flestum gestum og við verðum að líta til þess í ákvörðunartökunni. Mér líst því vel á þá ákvörðun að halda mótið á Gaddstaðaflötum 2014. Nú verða því tvö mót á Suðurlandi og í því felst ákveðin tilraun á tillögu Landsmótsnefndar, en ég sé það þó ekki sem svo að valið sé stefnumarkandi.“ 
 
Þessu tengt: