sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ákvörðun tekin í dag

19. desember 2011 kl. 09:54

Ákvörðun tekin í dag

Í dag mun stjórn Landsmóts og LH funda og taka ákvörðun um Landsmótsstaði fyrir hátíðina 2014 og 2016. Ljóst er að erfið ákvörðun liggur fyrir þeim sem ákvörðunarvaldið hafa, enda hefur umræðan um val landsmótsstaðar ávallt orkað tvímælis.

Eftir að hestamannafélagið Léttir ákvað að draga umsókn sína til baka í haust stendur valið á Landsmótsstað fyrir árið 2014 á milli Gaddstaðaflata við Hellu, Vindheimamela í Skagafirði og Melgerðismela í Eyjafirði.

Stjórn Funa í Eyjafirði ásamt sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar,  Akureyrarstofu og markaðsstofu Norðurlands áttu fund með stjórn LH og LM fyrr í mánuðinum þar sem Eyfirðingar kynntu sjónarmið sín.

„Reynsla Eyfirðinga af Handvershátíðinni hefur gefið okkur reynslu sem nýtist þegar taka á við miklum fjölda gesta. Aðstæður á Melgerðismelum eru ákaflega góðar frá náttúrunnar hendi. Veðurfar er gott og eins hefur skógrækt á svæðinu fegrað umhverfið og aukið skjól. Í ljósi umræðunnar um harða óhestvæna velli má benda á að  hönnun valla á Melgerðismelunum tók mið af velferð hestsins, bæði hvað varðar lögun og undirlag,“ segir í frétt af fundinum á vefsíðu Funa.

Á meðan stendur valið á Landsmótsstað árið 2016 á milli sömu staða; Gaddstaðaflata, Vindheimamela, Melgerðismela auk Reykjavíkur sem munu halda mótið næsta sumar.

Rúnar Sigurðsson formaður Fáks talar fyrir því að Landsmót hestamanna 2016 verði haldið í Reykjavík í grein sem Morgunblaðið birti í dag og má einnig nálgast hér á síðunni. Þar ritar hann meðal annars:

„Hvers vegna sækist Fákur nú eftir því að halda landsmót 2016 í Reykjavík? Mikilvægt er að skoða vel hagsmuni allra hestamanna og láta ekki hreppapólitík ráða för. Ljóst er að töluverð uppbygging þarf að eiga sér stað á þeim stöðum sem landsmót er haldið á hverju sinni og hefur sú uppbygging átt sér stað í Reykjavík sem undirbúningur fyrir landsmót 2012.“

Ennfremur segir að hagnaður hafi verið á mótinu í Reykjavík árið 2000, þveröfugt við það sem margir hafi haldið og minnir á að fjárhagsleg staða LH sé ekki sterk eftir hestapestina og fámennt landsmót í ár. „Ef vel tekst til í Reykjavík 2012 mun fjárhagsstaða landsmóts styrkjast verulega.“

Hann bendir einnig á samkeppni landsmóts við Heimsmeistaramótið sem eykur enn kröfurnar um vandvirkni og er þar umhugað um heildarhagsmuni íslenska hestsins og þeirra sem hafa atvinnu og ánægju af honum.

Tilkynnt verður um landsmótsstaði árið 2014 og 2016 í kvöld eða í fyrramálið.