þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhrif þyngdar á hest

25. júní 2014 kl. 14:05

Hvaða áhrif hefur þungi knapa á hjartslátt, mjólkursýrumyndun og hreyfingar á tölti hjá íslenska hestinum?

Vikuna 2. -6. júní 2014 var sett upp rannsókn á Hólum til að mæla áhrif af mismiklum knapaþunga á hjartslátt hesta, mjólkursýrumyndun í blóði og hreyfingar á tölti.

Notaðir voru 9 fullorðnir reiðhestar (5 geldingar og 4 hryssur) og einn knapi og síðan bætt við viðbótarþunga (blýi í hnakkinn, undirdýnu, þungum ístöðum og vesti á knapa) til að fá áhrifin af mismunandi knapaþunga.

Aðeins einn knapi var notaður til að koma í veg fyrir áhrif af mismunandi reiðlagi ólíkra knapa. Hlutfall þunga knapa af þunga hests var reiknað og prófuð voru hlutföllin 20%, 25%, 30% og 35%. Meðalþungi hestanna var 366 kg og meðalþungi knapa, reiðtygja og viðbótarþunga var 73, 91, 110 og 128 kg fyrir þau hlutföll sem voru prófuð.

Hestarnir voru settir í sama þjálfunarpróf með öll þungahlutföllin en þeim var riðið 600 m á tölti á hringvelli, á hraðanum um 5 m/s með hvern þunga (ca. 2 mín). Hjartsláttur var mældur allan tímann og blóðsýni tekið eftir hvert þjálfunarpróf. Auk þess voru hestarnir með nema til að mæla hreyfingarmynstrið á töltinu og öll þjálfunarprófin voru tekin upp á myndband. Líkamlegt heilbrigði hestanna var metið fyrir rannsóknina og í tvo daga eftir hana. Áður en rannsóknin hófst fékkst leyfi fyrir henni hjá tilraunadýranefnd.

Rannsóknin er hluti af doktorsnámi Guðrúnar Stefánsdóttur í þjálfunarlífeðlisfræði íslenskra hesta en gögnin úr hreyfingarfræðihlutanum mun Víkingur Gunnarsson nýta í sínu endurmenntunarnámi, en hann mun verða í endurmenntunarleyfi í Uppsala í Svíþjóð frá ágúst 2014 til júní 2015. Tveir sérfræðingar komu frá sænska landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð til að leiðbeina við og taka þátt í rannsókninni, þau Anna Jansson og Lars Roepstorff. 

Rannsóknarhópurinn: Talið frá vinstri Höskuldur Jensson, Guðrún Stefánsdóttir, Víkingur Gunnarsson, Lars Roepstorff, Bjarni Dagur Jóhannsson, Fredrica Fagerlund, Anna Jansson og Erla Heiðrún Benediktsdóttir. Lengst til hægri er svo hryssan Brenna frá Hólum en hún tók þátt í rannsókninni.
Háskóli ÍslandsKnapi og hestur á ferð. Settur var æðaleggur í hestana (festur með hvítu bandi um háls). Á hjálm knapans var fest GPS-tæki, á fótum og lend hestsins eru nemar til að meta hreyfingarnar og útbúinn var sérstakur hnakkur með vösum til að þyngja með blýi.
Háskóli ÍslandsHér má betur sjá búnaðinn sem var notaður. Undirdýnurnar voru rúm 17 kg og hægt var að bæta 20 kg af blýi í hnakkinn (10 kg hvorum megin).
Háskóli Íslands
Blýklumparnir sem voru notaðir til að þyngja hnakkinn og fóru einnig í vesti knapans. Einnig má sjá 4 kg ístöð sem voru notuð á þyngstu hestana (þurftu mestu þyngdina á sig) við mesta þungann (35%).
Háskóli Íslands
Blýi bætt í hnakkinn.
Háskóli ÍslandsÞegar mesti þunginn (35%) var prófaður þurfti knapinn að ríða með 15 kg vesti.
Háskóli Íslands
Það þurfti a.m.k. tvo hrausta karlmenn til að koma 15 kg vestinu á knapann! 
Háskóli Íslands
Brugðið á leik, „extra“ 15 kg eru ekki létt !  
 

Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir. Myndir Sveinn Ragnarsson.