miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágúst er fullur

31. júlí 2012 kl. 12:06

Floti góðra keppnishesta er í þjálfun um þessar mundir. Á myndinni er Súsanna Ólafsdóttir á Óttari frá Hvítárholti.

Í ágústmánuði fara fram mörg af skemmilegustu hestamótum sumarsins. Dagskráin er stútfull og úr mörgu að velja.

Síðasti mánuður keppnistímabilsins er að hefjast. Mörg áhugaverð og spennandi mót eru á dagskránni víða um land, að ógleymdu Norðurlandamótinu í hestaíþróttum sem fram fer í Svíþjóð um næstu helgi, verslunarmannahelgina!

Hér heima eru það hins vegar Stórmót Geysis og Fákaflug á Vindheimamelum sem bera hæst um mestu ferðamannahelgi ársins. Bæði mótin eru gæðingamót, það er að segja gæðingakeppni, A og B flokkur, er uppistaðan. Á Vindheimamelum fer fram síðsumarssýning kynbótahrossa í tengslum við Fákaflugið og eru um þrjátíu hross skráð á sýninguna.

Unglingamót UMFÍ er haldið á Selfossi þessa helgi. Keppt er í öllum greinum almenningsíþrótta. Þar á meðal í hestamennsku og fer sú keppni fram á sunnudaginn á svæði Sleipnis. Keppt er í helstu greinum hestaíþrótta. Hestaþing Loga er haldið í Hrísholti að venju og það mót á marga fastagesti sem láta sig aldrei vanta.

Suðurlandsmótið í hestaíþróttum verður svo haldið 15. - 19. ágúst og er fjögra daga mót. Um sömu helgi er Sumarsmellur Harðar í Mosfellsbæ, sem einnig er íþróttamót, þannig að það er nóg í boði þá helgi fyrir keppnismenn.

Eins og undanfarin ár verður stórmót á Melgerðismelum þriðju helgina í ágúst. Keppt verður í öllum flokkum gæðingakeppni, tölti og kappreiðum. Oftast hafa veglega peningaverðlaun verið í boði á þessu móti. Um sömu helgi er einnig opið íþróttamót hjá Þyti í Húnaþingi.

Gæðingaveisla Íshesta og Sörla verður haldin á Sörlastöðum í Hafnarfirði 23-25 ágúst. Mótið er gæðingamót eins og nafnið gefur til kynna og er opið mót. Bikarmót Vesturlands í hestaíþróttum verður einnig haldið þessa helgi, annaðhvort á Æðarodda eða á Kaldármelum.

Síðasta mót ársins, alla vega það sem skráð er í mótaskrá LH, er Meistaramót Andvara á Kjóavöllum,  sem er gæðingamót, þar sem einnig er keppt í tölti og skeiðgreinum. Nokkur smærri mót eru haldin víða um land í ágúst og má finna þau í mótaskrá LH HÉR.