miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aganefnd LH staðfestir úrskurð gæðingadómara

20. júní 2012 kl. 11:43

Tinni frá Kjarri úti í kuldanum

Aganefnd LH hefur staðfest ógildingu gæðingadómara á sýningu Tinna frá Kjarri í A flokki gæðinga á sameiginlegri úrtökukeppni Sleipnis, Ljúfs og Háfeta, sem fram fór 2. júní 2012. Fjallað var um málið HÉR og HÉR á Hestablaðinu í kjölfarið.

Helgi Eggertsson í Kjarri, eigandi Tinna, segir niðurstöðu aganefndarinnar mikil vonbrigði.

„Þetta er vissulega mikil vonbrigði,“ segir Helgi. „Eftir því sem ég les rökstuðning aganefndarinnar oftar þá finnst mér hann byggður á afar hæpnum forsendum, alveg eins og rök yfirdómarans fyrir ógildingu sýningarinnar. Í báðum tilfellum stangast margt hvað á annars horn.

Aganefndin tekur fram að margt sé óljóst í reglunum, sem þurfi að skýra. Samt sem áður telur nefndin það ljóst samkvæmt lögum og reglum LH að ríða eigi þrjá hringi í A flokki gæðinga og til að klára þá þurfi keppandi að ljúka sýningu á skammhlið. Allir sem lesa dóminn og síðan lög og reglur LH sjá að þetta er útskýring byggð á sandi. Sá sem endar sýningu í A flokki á skeiði, eins og Tinni í þessu tilfelli, ríður ekki inn á skammhlið aftur að loknum skeiðspretti. Það hefur aldrei tíðkast og er ekki kveðið á um í reglum. Það segir einungis að keppandi hafi þrjá hringi til umráða og megi nota skeiðbrautina einu sinni. Og síðan: „Noti sýnandi beinu brautina áður en hann hefur lokið þremur hringjum, ber honum að ljúka sýningu á skammhlið.“


Það er látið að því liggja að ekki sé ljóst hvort Tinni hafi í raun og veru verið að sýna fet  þegar hann sýndi fet á fimmtu langhliðinni, eða hvort hann hafi verið á svokallaðri "ferjuleið", sem er eitthvert nýyrði sem notað er hjá dómurum en er hvergi í lögum og reglum LH. Ég hef heldur aldrei heyrt það orð áður í tengslum við gæðingakeppni þótt ég sé búinn að vera í hestamennsku í fjóra áratugi eða meira. Sú útskýring að Tinni hafi verið á "ferjuleið" er út í hött. Það ríður enginn á feti enda á milli á vellinum til að fara í skeiðsprett og kemur síðan inn á aftur og telur sig eiga eina langhlið eftir. Þá fyrst væri nú ástæða til að gefa núll.

Það er alveg ljóst að á úrtökumótinu voru fleiri dómarar en færri á þeirri skoðun að Tinni væri að sýna fet og að sýningin væri lögleg. Í það minnsta þrír dómarar gáfu honum einkunn fyrir fetið og síðan skeiðið. Þeim þótti ekkert athugavert við það þótt hann riði beint út brautina eftir að hafa sýnt fetið, en færi ekki inn á skammhliðina. Ég hef undir höndum þrjú af fimm dómarablöðum yfir umrædda sýningu. Einn dómari var búinn að gefa einkunnir fyrir allar gangtegundir. Annar var búinn að gefa fyrir allar gangtegundir, fegurð og vilja. Sá þriðji var búinn að gefa fyrir allar gangtegundir, vilja og fegurð, og reikna út aðaleinkunn. Sú fullyrðing yfirdómarans, sem kemur fram í úrskurði aganefndar, að samráð hafi ekki verið haft er því afar ótrúverðug.

Það er ljóst að dómarar hafa mjög misjafnar skoðanir á því hvað er lögleg sýning og hvað ekki. Í úrskurði aganefndar er haft eftir Lárusi Hannessyni, formanni Gæðingadómarafélagsins, að honum sé kunnugt um að sýning á stóru móti sem var eins riðin og sýning Tinna hafi ekki verið dæmd ólögleg.

Eftir því sem mér er sagt þá stendur það í lögum og reglum LH að keppandi eigi að njóta vafans þegar óljós atriði koma upp eins og þetta og held reyndar að það sé almenn regla í íslensku réttarkerfi. Aganefndin tekur undir það, en dæmir samt sýninguna ógilda á þeim forsendum að textinn í lögum og reglum LH sé alveg skýr og knapinn hefði átt að ríða inn á skammhliðina áður en hann fór út á skeiðbrautina. Ef hægt er að lesa út úr lögum og reglum LH að sýning Tinna hafi verið ólögleg þá kann ég ekki íslensku. Ég hef hins vegar ekki séð neina af þessum servéttum sem gæðingadómarar eru með í rassvasanum.“

Muntu áfría þessum dómi til dómstóls ÍSÍ?

„Ég býst frekar við því. Fyrst voru sárindin aðallega vegna þess að okkur fannst brotið á hestinum. Þetta var tilfinningalegt og hugsanlega fjárhagslegt tjón fyrir okkur og knapann. Árangur í keppni hefur heilmikla þýðingu, ekki síst fyrir stóðhesta, sem þarf sífellt að vera að kynna. Nú snýst þetta meira orðið um það prinsipp að réttlæti sé í heiðri haft. Ég upplifi þetta núna eins og félagslegt ofbeldi þar sem eitthvert kerfi er að gæta hagsmuna innandyra en ekki félagsmanna sinna. Það er alla vega mjög undarlegt að ein stofnun innan LH, í þessu tilfelli stjórn Gæðingadómarafélagsins, skuli senda frá sér yfirlýsingu  þar sem tekin er afstaða í málinu, með dómurunum en á móti kærunni. Í sama mund og ég sendi mína kæru til aganefndar LH. Það er ekki óeðlilegt að maður spyrji sig hver sé tilgangur þessara samtaka.“

Hvað finnst þér um að knapi í A flokki gæðinga, sem kominn er með hest inn á Landsmót, dæmi úrtöku í sama flokki í þínu félagi, sem er að velja sína bestu keppendur inn á mótið. Í þessu tilfelli Sigurbjörn Bárðarson, sem jafnframt var yfirdómari á úrtökumótinu?

„Alveg burtséð frá persónum, þá er það fyrirkomulag út í hött og ætti ekki að lýðast. Ég hélt að allt fólk með þokkalega góða siðferðisvitund myndi ekki láta þvinga sig í þær aðstæður. Alla vega myndi ég vilja keppa við keppinauta mína inni á vellinum en ekki fyrir utan hann sem dómari,“ segir Helgi Eggertsson í Kjarri.