sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágætu hestamenn, árið 2012 er árið ykkar.

23. desember 2011 kl. 08:29

Gunnar Bjarnason

Ágætu hestamenn, árið 2012 er árið ykkar.

Loksins er að renna upp árið sem söngvarinn snjalli Vilhjálmur Vilhjálmsson söng um þegar ég var strákur. Þá var þetta ár í óra fjarlægð  og hann spáði að búið yrði að malbika tunglið og steypa það í hólf og gólf...

Sem betur fer er það ógert og tunglið er á sínum stað og meira í friði eftir að menn stigu fæti á þá miklu grund.
Hestamenn hafa hinsvegar komið svo miklu í verk á þessum árum að þeir eiga gnægð tækifæra og hafa heiminn allan undir sem viðskiftasvið Íslandshestsins. Íslenski hesturinn dáður sem fjölskylduhestur og hæfileikagripur um víða veröld.
Víðidalurinn í brennidepli
Nú er árið 2012 að renna upp með Landsmóti í Reykjavík. Reykjavík verður sérstök borg íslenska hestsins í heila viku, er það að vísu allt árið. Nú leggja allir niður deil-urnar um hvar hefði átt að halda mótið og, hvað sem okkur fannst um það þá er þetta niðurstaðan.  Landsmótið er í Reykjavík að þessu sinni. Fáksmenn og Víðidalurinn verða í brennidepli, það er svo geggjað að geta hneggjað söng Flosi okkar Ólafsson. Það verður geggjað að vera hestamaður á þessu Landsmóti og vil ég skora á alla sem unna hestinum, frelsi hans og frægð að undirbúa Reykjavíkur-ferð á Landsmót.
Markaðurinn mun rísa á ný!
Nú hefur Jónas Kristjánsson kortlagt reiðleiðirnar um landið spennandi bók gamalla og nýrra ferðalaga þúsundára sögu.  Íslandshestamenn munu koma allsstaðar að úr veröldinni til að upplifa Landsmótið og sjá hvað upprunalandið er að afreka í ræktun og reiðmennsku. Við sjálf þurfum á glæsilegu Landsmóti að halda, takist það mun markaðurinn rísa á ný. Höfuðborgin skiftir miklu máli og sé Landsmótið vel skipulagt sem ég efast ekki um að verði, þá  munu hundruðir drengja og stúlkna gerast þar hestamenn því sjón er sögu ríkari.
Landsmót Hestamanna er stærsti atburðurinn  í ferðaþjónustunni hverju sinni og þessvegna á Ríkið gegnum Ráðuneytin, Íslandsstofu, ferðaskrifstofurnar og flugfélögin að hjálpa til að gera þetta Landsmót stærra og meira en nokkru sinni.  Reykjavík og reyndar hin sveitarfélögin hér fyrir sunnan munu njóta athyglinnar og eiga að koma að þessum atburði svo mikilvægur er hann.

Vantar umboðsmann Íslenska hestsins?
Sú var tíðin að Gunnar Bjarnason hrossaræktar ráðunautur, eldhuginn mikli í samvinnu við SÍS, Flugfélagið og eða Flugleiði opnaði þessa veröld umheiminum. Nú reisa vinir og frændur Gunnari minnismerki á Hvanneyri, hann á eitt slíkt minnismerki hjá Fáksmönnum í Víðidalnum. Gunnar var í hlutastarfi sem ráðunautur útflytjanda um hestaverslun og fulltrúi í félagsmálum erlendis. Þetta útbreiðslu starf hans var afar mikilvægt og er sjaldan um það rætt sem starf eða embætti en þannig var það, þar vantar áróðursmann í dag. Enginn einn maður útbreyddi þekkinguna og áhugann um hestinn okkar eins og Gunnar. Þetta umboðsmannsstarf hans féll niður þegar hann hætti störfum. Samstaða náðist ekki um Umboðsmann eða Sendiherra Íslenska hestsins sem ég stofnaði til sem landbúnaðarráðherra. Hinsvegar þarf ísland sem forystuland og upprunaland hestsins á slíku starfi sem Gunnar Bjarnason gengdi í áratugi að halda,hann stofnaði félögin erlendis og með áróðri tengdi hann hestamennina Íslandi. Ég tel að á ný eigi að koma upp slíku markaðsstarfi fyrir okkar hönd sem samvinnuverkefni margra aðila, við eigum marga magnaða sölu og markaðsmenn sem myndu ekki einungis styrkja hestinn og hestamenn um víða veröld heldur einnig auglýsa Ísland sem ferðamannaland og hestinn sem þjóðargersemi. Hvað sem þessu líður er aðalatriðið árið 2012 að tryggja að Landsmótið í Reykjavík verði það glæsilegasta fram að þessu. Þar eruð þið hestamenn og Hestamannafélögin í aðalhlutverki og takist það hefst nýr og glæsilegur tími með sókn og sigrum Íslandshestsins  Áramótaheit allra hestamanna og sem flestra íslendinga í borg og sveit ætti að vera: „mætum á Landsmótið í Reykjavík með bros á vör“.
Að lokum óska ég öllum hestamönnum gleðilegra jóla og velfarnaðar á nýju ári.
                                                    Guðni Ágústsson.