mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Aftur á bak"

18. janúar 2014 kl. 14:28

Hestamannafélagið Hörður

Fræðslunefnd Harðar býður upp á fjöldan allan af námskeiðum í vetur

Reiðnámskeið á vegum Harðar í janúar og febrúar

Nú hefjum við árið af krafti og kynnum fyrstu umferð af námskeiðum fyrir fullorðna í Herði. Stefnt er að því að námskeiðin byrji vikuna 27. janúar til 3. febrúar. Þegar skráning liggur fyrir verða nákvæmar tímasetningar á námskeiðunum kynntar. Skráning fer fram í gegnum Sportfeng. 

Aftur á bak
Rólegt og uppbyggjandi námskeið fyrir fólk sem er að byrja í hestamennsku eða hefur aldrei farið á námskeið. Einnig fyrir þá sem hafa jafnvel orðið hvekktir en vilja komast í hnakkinn aftur eða þá sem skortir kjark og ná þess vegna ekki þeim árangri sem þeir stefna að.
Kennt í 6 skipti. 
Kennari verður Oddrún Ýr Sigurðardóttir.
Verð: 12.000 kr. 

Almennt keppnisnámskeið
Almennt keppnisnámskeið er ætlað þeim sem hafa hug á að taka þátt í hvers kyns mótum í áhugamannaflokkum. Á námskeiðinu verður meðal annars farið yfir þá áhugamannaflokka sem boðið er upp á í almennri keppni. Kennslan verður jafnframt sniðin að þörfum nemenda. 
Kennt í 6 skipti.
Kennari verður Súsanna Ólafsdóttir.
Verð: 12.000 kr.

Vinna í hendi
Fjallað verður um mismunandi leiðir til að vinna í hendi. Lögð verður áhersla á andlegt og líkamlegt jafnvægi, líkamsbeitingu, sveigjanleika, jafnvægi til hliðanna og stjórn á yfirlínu á grunnþjálfunarstigi. Ætlunin er að nemendur öðlist meiri þekkingu á jafnvægi hestsins og geti notfært sér nýjar þjálfunaraðferðir til að stuðla að fjölbreytni í þjálfun. Kennslan mun byggja á áherslu á verklega kennslu en jafnframt bóklega samhliða sýnikennslu.
Kennt í 6 skipti.
Kennari verður Malin Elisabeth Jansson.
Verð: 12.000 kr.

Gangsetning tryppa / framhald í tamningu
Námskeiðið er fyrir tryppi sem lokið hafa frumtamningu og eru komin á stig gangsetningar. Skipulagið verður þannig að í upphafi er miðað við hálftíma einkatíma en það mun taka breytingum samhliða framförum tryppanna og getur þróast í klukkutíma kennslustund með tveimur nemendum. 
Kennt í 6 skipti á fimmtudögum.
Kennari verður Róbert Pedersen.
Verð: 24.000 kr.

Paratímar / einkatímar hjá Róberti Pedersen
Námskeið sérsniðið að þörfum hvers og eins og hentar hestum og knöpum á öllum stigum reiðmennskunnar. Í boði eru einkatímar í 30 mínútur eða tveir nemendur saman í 60 mínútur. 
Kennt í 6 skipti á fimmtudögum.
Kennari verður Róbert Pedersen.
Verð: 24.000 kr.

Reiðnámskeið með Rúnu Einarsdóttur
Námskeið sérsniðin að þörfum hvers og eins og hentar hestum og knöpum á öllum stigum reiðmennskunnar. Í boði eru einkatímar í 30 mínútur eða tveir nemendur saman í 60 mínútur. 
Kennt í 5 skipti á miðvikudögum.
Kennari verður Rúna Einarsdóttir.
Verð: 22.500 kr.

Skráning skal eiga sér stað í gegnum Sportfeng (velja skráningarkerfi):
http://skraning.sportfengur.com/SkraningNamskkort.aspx?mode=add

1. Velja námskeið. 
2. Velja hestamannafélag (Hörður).
3. Skrá kennitölu þátttakanda – (Ef kennitala ekki í félagaskrá, þarf að fara inná www.hordur.is og sækja um aðild).
4. Velja atburð (og hóp ef fleiri en einn hópur).
5. Setja í körfu. 
6. Velja greiðslufyrirkomulag: Greiðslukort eða millifærsla. Skráning telst ekki gild nema greiðsla hafi borist.