föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afreksfólk í hestamennsku heiðrað á Uppskeruhátíð

12. nóvember 2012 kl. 16:08

Kapar ársins 2012: Ásmundur Ernir Snorrason, Jakob Svavar Sigurðsson, Sigurbjörn Bárðarson, Sigurður Sigurðarson, Freyja Amble og Brynja Amble Gísladætur, og fyrir framan knapi ársins 2012 Guðmundur Björgvinsson. Mynd/Eva Björk Ægisdóttir

Augljóst að valnefnd hefur tekið ákveðinn kúrs. Skráðir áverkar vega þungt í vali á tilnefndum knöpum.

Landssamband hestamannafélaga hefur tekið ákveðna stefnu í varðandi tilnefningar í vali á knöpum ársins. Nú eiga þeir mesta möguleika sem eru með enga, eða fáa minniháttar, skráða áverka á hestum sínum á keppnistímabilinu. Heilbrigðisskoðunin Klár í keppni sem nú er viðhöfð á Lands- og Íslandsmótum, ásamt áverkaskráningum á kynbótasýningum, gerir valnefndinni kleift að fá upplýsingar um skráða áverka á keppnis- og sýningahrossum. Ekki dugar því lengur að safna stigum og titlum og sýna íþróttamannlega framkomu á sýningarstað ef áverkaskráning gefur tilefni til að ætla að ekki sé allt sem sýnist.

Efnilegasti knapi ársins: Ásmundur Ernir Snorrason, Mána

Íþróttaknapi ársins: Jakob Svavar Sigurðsson, Dreyra

Gæðingaknapi ársins: Sigurður Sigurðarson, Geysi

Skeiðknapi ársins: Sigurbjörn Bárðarson, Fáki

Kynbótaknapi ársins: Gísli Gíslason, Þúfum

Knapi ársins: Guðmundur Björgvinsson, Geysi

Allir knaparnir tóku við verðlaunum sínum nema Gísli Gíslason, sem átti ekki heimangengt, en dætur hans tóku við verðlaununum fyrir hans hönd.

LH veitti tveimur heiðursmönnum heiðursverðlaun fyrir áralanga aðkomu þeirra að málefnum íslenska hestsins um allan heim. Þetta voru þeir dr. Ewald Isenbügel dýralæknir í Sviss og Eyjólfur Ísólfsson reiðkennari og þjálfari. Því miður gátu þeir hvorugur heiðrað samkomuna með nærveru sinni en bróðursonur Eyjólfs, Ísólfur Líndal Þórisson kom og tók við hans verðlaunum.

Magnús Svavarsson og Hólmfríður Björnsdóttir á Blesastöðum 1a hlutu titilinn Ræktunarbú keppnishesta og af slíkum frá búinu má nefna þau Ölfu, Fláka og Óskar frá Blesastöðum 1a. Magnús og Hólmfríður tóku við verðlaunum sínum á hátíðinni.