laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áfram lægð í hrossakjötssölu

odinn@eidfaxi.is
14. október 2013 kl. 13:25

Biðlistar til að koma hrossum í slátrun.

Það er áfram lágt verð fyrir hrossaafurðir en talsvert fall var á verði til bænda eftir hrossakjötsmálið sem varð í Bretlandi í fyrra. Þar fannst hrossakjör í réttum þar sem ekkert hrossakjöt átti að vera.

Í kjölfarið varð talsverður afturkippur í sölu hrossakjöts og þó að markaðir okkar hafi ekki verið á þau svæði þar sem málið kom upp hefur eftirspurn eftir hrossakjöti verið talsvert minna.

Fyrir u.þ.b ári var vöntun á hrossum til slátrunar og verð til bænda á kjöti af fullorðnum um 150 kr/kg en í dag er borgað um 80 kr/kg fyrir sama kjöt. Af sama skapi hefur verð á folaldakjöti lækkað úr 390 kr/kg í 300 kr/kg sem gerir um 24% lækkun.

Í samtali við Einar Hjálmarsson sláturhússtjóra SS á Selfossi segir hann talsverðan biðlista vera fyrir hross í slátrun. “Við erum búin að slátra um 1800 hrossum í ár, en allt árið í fyrra var um 2500 hrossum slátrað hjá okkur. Það er ljóst að það verður samdráttur á milli ára” segir Einar en bætir við að alltaf lengist biðlistinn á haustinn og að hestamenn megi vera meira á tánum á sumrin en þá sé oft vöntun á hrossum til slátrunar.