þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afmælismótaröð Léttis lokið

5. júlí 2013 kl. 14:33

Úrslit í fimmgangi fullorðinsflokks

Frábærri mótaröð er nú lokið. Lokakvöldið fór vel fram í örlítilli rigningu en góðir hestar mættu til leiks og góður andi var í mannskapnum.

Við keyrðum forkeppnina úr öllum flokkum saman í einni forkeppni og er það álit okkar að það sé það sem koma skal á þessum mótum. Við í mótanefndinni höfum heyrt, bæði í knöpum og áhorfendum að þetta fyrirkomulag sé skemmtilegt og að gaman er að hafa mótin með þessu sniði.

Léttifélagar voru duglegir að mæta í félagsbúningi sýnum og var gaman að sjá fallega búninginn okkar á þessum mótum.

Við í mótstjórn þökkum kærlega fyrir okkur og þökkum góðar viðtökur við þessari nýjung.

Myndir eru komnar á facebooksíðu Léttis.

 

Viðar Bragason, Björgum í Hörgárbyggð.

Hvernig finnst þér þetta nýja fyrirkomulag að hafa mótin á virkum kvöldum?

Mjög gott.. er alveg í skýjunum yfir þessu og finnst þetta alveg frábært fyrirkomulag.

Hvað finnst þér um að hafa bara eina forkeppni?

Mér finnst það mjög sniðugt ef dómurunum finnst þetta í lagi. Mér finnst persónulega sniðugt.

Er eitthvað sem þarf að breyta eða gera betur?

Eins og þetta hefur verið í sumar er þetta eins gott og það getur verið. Þessi kvöldmót eru snilld.

Þetta er mikið framfaraskref og er bara uppávið.

Hvað er framundan hjá ykkur?

Íslandsmót yngri flokka er framundan hér á Akureyri og ætla krakkarnir að taka öll okkar bestu hross og keppa þar. Þau eru farin að æfa stíft fyrir mótið og ætla sér stóra hluti þar. Svo eru bara þessi hefðbundnu störf hér á bænum.

 

Baldvin Ari Guðlaugsson, Efri Rauðalæk, Hörgárbyggð.

Hvernig fannst þér þetta nýja fyrirkomulag að hafa mótin á virkum kvöldum?

Frábært, þetta virkar mjög vel. Helgin er ekki öll undir í mótahaldi.

Hvað finnst þér um að hafa bara eina forkeppni?

Mér finnst það mjög gott.. er bara hrifinn af þessu öllu.

Er eitthvað sem þarf að breyta?

Ekkert sem kemur í kollinn 1 2 og 3. Þarf kannski að kynna þetta betur. Vantar fleiri áhorfendur, þetta er skemmtilegur viðburður sem tekur stuttan tíma… þetta er bara eins og fara á góða bíómynd.

Hvað er framundan hjá ykkur?

Núna snýst allt um ræktunarbússýninguna í Berlín.. það er gríðarlega mikill undirbúningur í kringum það. Svo er verið að keyra hryssur út um allt undir stóðhesta og taka á móti folöldum. Svo þessi hefðbundnu bændastörf heima á Efri Rauðalæk.

Ágústa er farin að æfa sig fyrir íslandsmótið og ætlar að láta til sín taka þar.

 

Birgir Árnason, yfirdómari mótaraðarinnar.

Hvernig fannst þér þetta nýja fyrirkomulag að hafa mótin á virkum kvöldum?

Ég er bara sáttur við það , góð tilbreyting.

Hvað finnst þér um að hafa bara eina forkeppni?

Mér finnst það svolítið vont fyrir börnin. Finnst þau ekki njóta sannmælis. Held að það væri betra að hafa þau í röð þó forkeppnin væri riðin í einni bunu.

Er eitthvað sem þarf að breyta?

Nei það held ég ekki. Nema þessu með forkeppnina.

Hvað er framundan hjá þér?

Framundan eru útreiðar og að hafa gaman.. andlegur undirbúningur fyrir dómgæslu á Íslandsmóti yngir flokka.

 

Þóra Höskuldsdóttir, knapi í unglingaflokki.

Hvernig fannst þér þetta nýja fyrirkomulag að hafa mótin á virkum kvöldum?

Bara fínt, skiptir mig litlu máli þar sem ég er í sumarfríi. En gott að eiga helgarnar í rekstra og ferðalög… eða sofa út.

Hvað finnst þér um að hafa bara eina forkeppni?

Mér finnst það allt í lagi. Held að þetta sér áhorfendavænna og verður fjölbreyttara.

Er eitthvað sem þarf að breyta?

Það vantar fleiri þáttakendur í þessi mót, fleiri knapa frá öðrum félögum og kannski fjölbreyttari keppnistgreinar sem henta sem flestum. Eins og víðavangshlaup, þrautabrautir og hindrunarstökk. Þá stækkar hópurinn sem getur keppt.

Hvað er framundan hjá þér?

Er farin að æfa fyrir Íslandsmótið. Ætla að reyna að keppa í sem flestum greinum og er að prófa mig áfram í Fimi.. sem er ný grein hjá mér einnig langar mig mikið í slaktaumatölt.. þetta er allt í vinnslu hjá mér :o)

Við fjölskyldan ætlum að skella okkur í hestaferð í Bárðardalinn í næstu viku. Svo hlakka ég mikið til að fara á HM í Berlín. Þar verður mikið stuð..