þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflamenn á Uppskeruhátíð

24. október 2011 kl. 11:44

Guðmundur Einarsson, hlaut Fjaðurverðlaun FEIF 2009. Hann hefur náð frábærum árangri og er jafnframt einn prúðasti og sanngjarnasti knapi og þjálfari á íslenskum hestum.

Renna á rassinn þrátt fyrir góðan ásetning

JENS EINARSSON - SKOÐUN:

Á Uppskeruhátíð hestamanna verða knapar verðlaunaðir fyrir árangur. Ekki endilega fyrir góða reiðmennsku. Heldur fyrir aflamagn! Eins og kvótagreifarnir og skipstjórar, sem ofveiddu fiskistofnana, eyðilögðu mest, og fengu í verðlaun stærstan kvóta.

Keppni í hestaíþróttum setur reiðmönnum ramma. Þeir eiga að leysa verkefni og hafa til þess fyrirfram ákveðinn fjölda hringja á hringvelli, eða ferðir á beinni braut. Það gilda reglur um gangtegundir sem riðnar skulu og hvernig. Hver grein tekur ekki nema þrjár til fimm mínútur — og niður í sjö til átta sekúndur! Ef hesturinn er ekki tilbúinn í samstarf um að leysa þrautina akkúrat þá stundina, til dæmis ef honum er mál að pissa, er pakksaddur, eða slæmur í bakinu, þá vandast málið. Þetta er vonda hliðin á keppnisíþróttum.

Hvort heldur það er knapi sem hefur undirbúið sig og hestinn mánuðum eða árum saman, eða kappsfullur skyndireiðmaður, þá er hvorugum að skapi láta möggl í hestinum eyðileggja fyrir sér stundina þegar hann leggur erfiði sitt og hæfni undir mæliker. Það er skiljanlegt. Hann freistast til að láta tilganginn helga meðalið, jafnvel þótt ásetningur hans hafi verið góður; að halda í heiðri velferð hestsins og listrænt samspil. Flestir renna á rassinn.

Það er þarna sem reynir á dómarana, — og þá sem velja knapa ársins! Hafa þeir hæfni og vilja til að greina á milli hins sanngjarna „góða reiðmanns“, sem hættir og gefur hesti sínum klapp á hálsinn þegar hann finnur að hann er ekki tilbúinn í slaginn, og „aflamannsins“ sem lætur ekki smá pus og skvettur setja sig út af laginu? Eða erum við kannski ekki að sækjast eftir góðri reiðmennsku? Það kemur í ljós á Uppskeruhátíðinni.

Og í þessu sambandi er rétt að minna á að FEIF hefur frá því 2002 veitt sérstök verðlaun, FEIF Feather Prize, eða Fjaðurverðlaun FEIF, til að reyna að örva og hvetja knapa í til að sýna sanngirni og léttleika í reiðmennsku, en láta ekki kappið hlaupa með sig í gönur. Hér verður ekki lagt mat á hvort þeir sem völdu knapana séu óskeikulir, en þeir sem hafa hlotið þessi verðlaun eru:

2011: Anne Stine Haugen at the World Championships 2011 in St Radegund, Austria.
2010: Bo Cavens at the FEIF YouthCup 2010 in Kalø, Denmark
2009: Guðmundur Einarsson at the World Championships 2009 in Brunnadern, Switzerland.
2008: Ástríður Magnúsdóttir at the FEIF YouthCup 2008 in Brunnadern, Switzerland.
2007: Lena Trappe at the World Championships 2007 in Oirschot, Netherlands.
2006: Andrea Balz at the FEIF YouthCup 2006 in St. Radegrund, Austria.
2005: Stian Pedersen at the World Championships in Norrköping, Sweden.
2004: Þorvaldur Árni Þorvaldsson at Landsmót in Hella, Iceland
2003: Frauke Schenzel at the World Championships in Herning, Denmark.
2002: Stephanie Nielsen at the International Youth Competition in Herning, Denmark.