þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afkvæmi Arðs skora hæst í hæfileikum - afkvæmi Gára skora fyrir sköpulag-

22. júní 2011 kl. 12:40

Afkvæmi Arðs skora hæst í hæfileikum - afkvæmi Gára skora fyrir sköpulag-

Þegar litið er á niðurstöður þeirra kynbótasýninga sem haldnar hafa verið ár er gaman að velta fyrir sér hvaða afkvæmahópar eru að koma best út úr dómum.

Afkvæmi Arðs frá Brautarholti koma best út í hæfileikaeinkunn, af þeim 11 afkvæmum sem sýnd voru er meðaltal hæfileikaeinkunnar 8,10. Afkvæmi Víðis frá Prestsbakka, sjö talsins, gáfu að meðaltali 8,09 í hæfileikaeinkunn. Þá voru þau 17 afkvæmi Þokka frá Kýrholti, sem sýnd hafa verið á kynbótasýningum á árinu, að gefa að meðaltali 8,03 í hæfileikaeinkunn.

Afkvæmi Gára frá Auðsholtshjáleigu hafa verið að gefa hæstu sköpulagseinkunnir, en af þeim 21 afkvæmum sem sýnd hafa verið á árinu hafa þau fengið að meðaltali 8,28 í sköpulagseinkunn. Afkvæmin sjö undan Víði frá Prestsbakka eru með annað hæsta meðaltalið, eða 8,14 og 22 afkvæmi Dyns frá Hvammi og 11 afkvæmi Andvara frá Ey gáfu að meðaltali 8,12 í sköpulagseinkunn.

Þá má til gamans geta að afkvæmi Kráks frá Blesastöðum 1A koma út með hæsta meðaltal í tölti – 8,68 og afkvæmi Stála frá Kjarri eru með hæsta meðaltal í skeiði – 7,96. Alls voru 17 afkvæmi Kráks sýnd á árinu og 14 afkvæmi Stála.

Hér er þó aðeins verið að reikna út meðaltal þeirra hrossa sem sýnd hafa verið á árinu og gefa því ekki heildstæða mynd af afkvæmum fyrrnefndra hrossa.