þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afhverju kynbótadómarar dæma ekki í sitthvoru lagi?

31. maí 2013 kl. 22:30

Afhverju kynbótadómarar dæma ekki í sitthvoru lagi?

Í kjölfar þeirrar umræðu sem orðið hefur vegna þeirra atvika sem áttu sér stað í dómgæslu kynbótahrossa á Selfossi hafa margir opinberað þá skoðun að breyta þurfi því kerfi sem notast er við í dag í dómum á kynbótahrossum.

Í stóðhestablaði Eiðfaxa var Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur tekin tali og hann m.a. spurður örlítið út í þessi mál. Hér að neðan má sjá hluta þess efnis sem finna má í blaðinu.

 

Erlendis er byggingardómur oft opin þannig að ræktendur og sýnendur fá að heyra það sem um er rætt í dómnum.  Er það eitthvað sem gera má ráð fyrir að komi til með að verða hér á landi á næstunni?

„Við ætlum að breyta fyrirkomulaginu örlítið í vor. En þó ekki út í það að hafa dóminn alveg opin vegna hættu á of miklum rökræðum. Hætta er á of miklum rökræðum við sýnandann á að hafa þetta opið. Erlendis er þetta víða opið en virðing fyrir dómara virðist vera meir. Þegar hrossið er búið að fara í byggingardóm verða tölurnar lesnar upp áður en hestur fer í hæfileikadóm. Þetta er mjög fræðandi og lærdómsríkt að hafa þetta opið en þetta er spurning um tíma.”

 

Eru einhverjar líkur á að breytingar verði á dómgæslu fyrirkomulagi þ.e. að dómarar fari að dæma í sitthvoru lagi?

„Nei, ég tel að kerfið sé gott eins og það er. Í meistaradeildinni og öðrum keppnum eru dómarar að færa sig meir út í það að dæma tveir og tveir saman. Þetta var reynt hér áður fyrr og var því hætt þar sem að tölfræðiniðurstöður sýndu fram á að of mikil miðlægni varð í dómum. Á stórmótum dæma dómarar saman, auk þess sem hinar greinarnar eru að færa sig í þá átt.”

 

En að hafa tvo og tvo dómara og tvö gengi?

„Þetta er allt spurning um kostnað, vandamálið er líka með krossana á blöðunum að það færi kannski út í að vera of ómarkvisst því blaðið yrði þá kannski útkrossað.  Tel að kerfið sem er í gangi í dag sé betra, sem virkar þannig að meirihlutinn ræður. Tel að við værum ekki að bæta kerfið né dóminn á hestinum með því að láta dómara dæma í sitthvoru lagi.”

 

btt.eidfaxi