fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Af gengisfellingu kynbótadómara

30. maí 2013 kl. 23:48

Af gengisfellingu kynbótadómara

Á sýningu kynbótahrossa á Selfossi nú í vikunni gerðist sá einstaki atburður að í dómhúsi gleymdist að slökkva á hljóðnema milli kynninga hrossa í braut og upptalningu einkunna - svo að gestir og gangandi máttu heyra hvað fór dómurum á milli þegar hestar komu í braut. Þetta var held ég einsdæmi. Alltsvo að það gleymdist að loka fyrir hljóðnemann milli kynninga og upplesturs dóma. Þarna gafst hestamönnum gott tækifæri til að sjá hvernig hross eru dæmd. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir alla hestamenn.

Það er allnokkuð sem vekur furðu manns vegna þessa:

ü     A.m.k. einn dómaranna á Selfossi taldi það ekki eftir sér að úttala sig um þekkta kynbótahesta, knapa og ræktendur og að því er virðist reyna að hafa áhrif á skoðanir meðdómara sína. Gildishlaðnir sleggjudómar að því er best verður séð – en skoðun viðkomandi dómara.

ü     Aðrir dómarar í dómhúsi virtust una því vel eða gerðu a.m.k. ekki athugasemdir við slíkt vinnulag eða umtal. Samþykkt hegðun semsagt.

ü     Enginn „fréttamiðill“ hestaíþrótta og hestamennsku hefur fjallað um málið.

ü     Umræddur dómari var, eftir því sem ég best veit, enn að störfum í dag – sem aftur vekur upp spurningar um hvað dómurum almennt finnst eðlilegt og við hæfi – og hvernig gæðaeftirliti þeirra háttað.

Ég held að það sé nauðsynlegt að taka umræddan dómara út fyrir sviga, þegar talað er um þetta mál. Það er engum til framdráttar að fara að níða skóinn af þeim manni. Enda er hann ekki vandamálið, að mínu viti, heldur kerfið.  En eftir stendur að þessi opinberun starfshátta hefur gengisfellt kynbótadómarastéttina.

Ef að umtal sem þetta er daglegt brauð  í dómhúsi, sem hlýtur eiginlega að vera af viðbrögðum annarra dómara að ráða, þá er greinilegt að taka þarf til hendinni er kemur að framkvæmd kynbótadóma. En einu viðbrögð þeirra sem fara með þennan málaflokk, a.m.k. opinberlega, eru engin. Sem þá væntanlega þýðir að þeim finnist þetta allt í lagi. Ef ekki, þá er hér í gangi stórkostleg þöggun og meðvirkni sem er að skaða heila atvinnugrein.

Hvar er aðhald við dómara? Hver sér um gæðastýringu? Nei, hér þurfa menn að gyrða sig í brók og skoða þessi mál upp á nýtt. Er ekki kominn tími til að menn í forsvari fyrir hestamennsku í landinu sýni kjark og hefji hestamennsku upp fyrir einstaka menn og hætti að verja staðnað og úrelt kerfi?

Staðreyndin er sú, og aðalatriðið, að kerfið þarfnast uppstokkunar. Í raun réttri þá hefur þessi uppákoma á Selfossi eingöngu styrkt mig í þeirri trú að það sé farsælt fyrir kynbótastarfið almennt að dómarar viti EKKI undan hvaða stóðhesti eða meri hrossið, sem þeir eru að dæma, er undan. Ég get ekki séð rökin með því að dómarar þurfi þessar upplýsingar til að dæma tiltekið hross fyrir byggingu eða kosti.

Dómar kynbótadómara skipta mjög miklu fyrir mjög stóra atvinnugrein. Það er fráleitt að þetta mál verði  þagað í hel. Það má ekki. Þetta er mikið hagsmunamál. Það á auðvitað að vera tryggt að hlutleysi sé gætt.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að dómarar skilji eftir persónulegar skoðanir og sína sannfæringu eftir utan dómhúss og því hlýtur það að vera betra fyrir alla að dómarar viti ekki undan hverju hrossið í braut er. (Já  ég veit að sumir dómarar þekkja margdæmd hross, eða fræg hross – ég er ekki að leggja til feluliti eða neitt slíkt – en mestu skiptir held ég að hvert hross sé dæmt af eigin verðleikum en ekki foreldranna. Drengurinn minn er til að mynda svo margfalt betri en ég á allan hátt að það tekur ekki neinu tali, ætti að dæma hann niður því að einhverjum finnst ég frekur, leiðinlegur, feitur, vitlaus eða hvað sem einhverjum kann að finnast?)

 Ég er sannfærður um að umræddum dómara er greiði gerður með því að ræða þessi mál opinberlega – það er hreinlegra en að umræðan fari fram á „slúðrinu“ þar sem menn fara bara í manninn og það má kallast tilviljun ef menn fara í boltann.

Sjálfur stunda ég hrossarækt ásamt nafna mínum og frænda. Við höfum notað mjög marga stóðhesta undanfarin ár, og reynum að mynda okkur skoðun á þeim – m.a. útfrá kynbótadómum. Illt er að geta ekki treyst að  þeir séu hlutlausir og sannir.

Ég skora á fyrisvarsmenn dómara að stíga nú fram og útskýra fyrir okkur hinum af hverju sú háttsemi sem vísað er til í þessum pistli er í lagi. Nú þarf Fagráð í hrossarækt að sýna okkur hinum að þar séu menn starfi sínu vaxnir. Á hrossaræktendur og hestamenn skora ég að einbeita sér að aðalmálinu, sem er breyting fyrikomulags kynbótadóma. Við þetta getum við ekki unað. Þessu verður að breyta.

Lifið heil.

Sigurður Örn Ágústsson