mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

AF GEFNU TILEFNI

15. júlí 2010 kl. 14:50

AF GEFNU TILEFNI

Í fimmta tölublaði Eiðfaxa 2010 birtust viðtöl við þrjá forystumenn hestamannasamtaka undir fyrirsögninni „MIKIL DÝFA FYRIR GREININA.“
Öll þrjú leggja þau talsverða áherslu á „misvísandi upplýsingar eða áherslur dýralækna“ varðandi þessa öndunarfærasýkingu í hrossum, sem geisað hefur frá því seint í vetur.

Formaður Landssambands hestamannafélaga segir meðal annars í viðtalinu: „Til lengri tíma litið held ég að við höfum orðið fyrir álitshnekki erlendis vegna misvísandi upplýsinga dýralækna. Erlendis hafa menn haft það á tilfinningunni að við séum alls ekki að ráða við þessar aðstæður.“
Viltu nú ekki, virðulegi formaður, upplýsa mig og jafnvel fleiri um hverjir þessir dýralæknar eru, sem haga sér svona. Mér finnst þetta jafnvel jaðra við landráð, ef svo er. Raunar hef ég sjálfur verið í lítilsháttar sambandi við erlenda hestamenn og hef ekki fundið fyrir þessari tilfinningu hjá þeim.
Vil ég benda þér á að lesa viðtöl í þessu sama tölublaði Eiðfaxa við vísindamenn á Keldum, Eggert og Vilhjálm, svo og Halldór yfirdýralækni og Sigríði sérgreinadýralækni hrossasjúkdóma. Þar koma fram, sem raunar hafði áður komið fram á prenti og víðar, upplýsingar um rannsókn á sjúkdómnum bæði hérlendis og nokkuð víða erlendis. Fæ ég ekki séð að þar að minnsta kosti gæti misræmis í skoðunum.

Formaður Félags tamningamanna, F.T., segir meðal annars í sínu viðtali: „Eins hefur það gert okkur hestamönnum mjög erfitt fyrir hversu misvísandi leiðbeiningar dýralækna voru. Smitvarnir voru greinilega ekki í lagi hjá okkur og algjör nauðsyn að allir hestamenn svo og aðrir leggist á eitt til að tryggja að ekki verði stórslys.“ Og á öðrum stað: „Nokkrir tamningamenn og reiðkennarar, sem hafa átt heimangengt stunda kennslu og þjálfun erlendis.“
Á undanförnum árum hefur Yfirdýralæknisembættið og Matvælastofnun eytt heilmiklu púðri í alls kyns auglýsingar til hestamanna og annarra sem koma til landsins með hliðsjón af hugsanlegum smitburði dýrasjúkdóma.
Nú spyr ég þig, frú formaður F.T.: Hvað hefur þú, eða þín samtök, gert til að hafa yfirsýn yfir félaga ykkar og aðra leiðbeinendur í hestamennsku, sem fara til útlanda til að fást við þetta og standa svo jafnvel samdægurs við heimkomu í hesthúsum sínum? Og hafið þið brýnt fyrir hverjum og einum varúðarreglur við heimkomuna? Og hafa þessi samtök hestamanna yfirleitt einhverja yfirsýn yfir allan þann fjölda ungs erlends fólks sem hér vinnur við hestamennsku? Er ekki full þörf á að koma skikki á þessi mál? Í hverra höndum skyldi það eiga að vera?

„Stóra bomban“ bíður landtöku hér. Við eigum engan annan kost en að reyna að verja okkur, verja „strendur landsins.“ Allt tal um óheftan innflutning og bólusetningar hrossastofnsins er óraunhæft, eins og Vilhjálmur Svansson hefur rækilega bent á. Slíkt er mjög kostnaðarsamt, óöruggt og ógjörningur að ná utan um allan hrossastofninn, til þess þyrfti hann að minnka niður í örfáa tugi þúsunda. Hver vill það?

Mér finnst formaður Félags hrossabænda taka skynsamlega og fordómalaust á þessu máli, og þakka ég honum fyrir það.

Stétt dýralækna á Íslandi er fámenn og liggur stundum vel við höggi. Ég tel mig geta fullyrt, eftir um fjörutíu ára veru í þessari starfsstétt, að þegar komið hafa upp erfið mál til úrlausna þá geta lausnir þeirra stundum orkað tvímælis.
En mér rennur til rifja þegar fólk, jafnvel með litlum rökum og í vandræðagangi sínum, ræðst að dýralæknastéttinni í heild sinni. Vörumst að grýta úr glerhúsi.

Ármann Gunnarsson, dýralæknir