þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Af FEIF þingi og fram á veg

12. febrúar 2015 kl. 11:24

Þorvaldur Kristjánsson

Aðsend grein Þorvaldar Kristjánssonar hrossaræktarráðunauts.

Á nýafstöðnu FEIF þingi í Kaupmannahöfn var ákveðið að banna á kynbótasýningum mél með tunguboga og vogarafli. Þetta bann var áður komið hérlendis í nýrri reglugerð um velferð hrossa sem kom út síðastliðið haust og því nauðsynlegt nú að samræma reglur á kynbótasýningum erlendis til móts við okkar reglur. Niðurstöður heilbrigðisskoðana á keppnishestum árið 2012 sýndu að notkun þessa búnaðar fylgir óásættanleg áhætta á alvarlegum áverkum í munni og voru þau áhrif staðfest síðastliðið sumar. Alvarlegir áverkar á kjálkabeini voru þá nánast úr sögunni hjá keppnishestum þar sem mél með tunguboga og vogarafli höfðu verið bönnuð, á meðan tíðni þeirra var ennþá of há hjá kynbótahrossum. Nú er þess að vænta að við náum sama árangri í kynbótasýningum. Á FEIF þinginu var einnig ákveðið að banna notkun á skáreim við enskan múl þegar riðið er við mél með vogarafli. Þetta bann var sett á í keppni fyrir nokkrum árum á vegum FEIF en á nú einnig við í kynbótasýningum. Þar lá að baki nánast einróma samþykki allra FEIF-þjóðanna og vilji til að hafa samræmdar reglur um beislisbúnað í keppni og kynbótasýningum. Því má segja að skýr stefna hafi verið mörkuð í þá átt að notast við sem einfaldastan beislisbúnað þegar kynbótahross eru sýnd. Það gæti auðveldað mat á vilja og geðslagi hrossa og hversu þjál þau eru. Einnig eru beisliseiginleikar hrossa klárlega arfgengir og tengjast líklega breytileika bæði í geðslagi og byggingu. Við hljótum að vilja rækta hross sem þurfa sem minnstan búnað til að skila afköstum; hestum sem eiga auðvelt með að ganga í jafnvægi og burði og búa yfir mýkt, bæði í geðslagi og ganglagi. Þetta  styður við þá ímynd sem við viljum skapa hestinum sem  þjáll og mjúkur ganghestur sem nýtist breiðum hópi fólks og styrkir markaðssetningu hans til framtíðar.

Einnig var ákveðið á FEIF-þinginu að breyta reglum um járningar hrossa þannig að hámarks lengd á hófum var stytt um hálfan sm. í öllum hæðarflokkum hrossa og einnig hvað varðar mun á lengd fram- og afturhófa. Nýjar reglur hljóma því svona: Hófar mega ekki vera lengri en 8,5 sm mælist hrossið lægra en 137 sm á stöng á hæstar herðar, sé hrossið 137 sm en þó lægra en 145 sm á hæstar herðar má hóflengdin vera allt að 9,0 sm og ef hæðin er 145 sm eða meiri má hóflengdin vera allt að 9,5 sm. Ekki má muna meiru en 1,5 sm á lengd fram- og afturhófa. Búið var að samþykkja þetta á aðalfundi Félags hrossabænda í haust og einnig í fagráði í hrossarækt.

Rétt er að benda á að tíðni ágripa í kynbótasýningum lækkaði á síðasta ári samanborið við árin á undan. Um 18% hrossa sem sýnd voru á kynbótasýningum árið 2014 gripu á sig. Það þýðir að um 82% hrossanna fóru í gegnum sýningarnar án ágripa sem er ekki slæmur árangur.  Af þeim hrossum sem gripu á sig voru langflest með aðeins smávægileg ágrip og einungis 8 hross á síðasta ári úr 1558 reiðdómum reyndust vera með alvarleg ágrip en það er um 0.5%. Staðan er því ekki slæm og fer batnandi. Hrossin koma sífellt betur undirbúin til dóms, framfarir í reiðmennsku eru merkjanlegar ár frá ári og hrossin eru oftar sýnd af þjálfurum sínum sem þekkja þau vel. Þá hefur meiri og meiri áhersla verið lögð á gæði gangtegundanna og rétta líkamsbeitingu í dómum á undanförnum árum, frekar en hraða og fótaburð, sem einnig hefur jákvæð áhrif á ásýnd sýninganna og skilar sér eflaust í lægri tíðni ágripa og meiri framförum. Þróun á mati á gangtegundum mun halda áfram og er meðal þeirra verkefna sem alltaf þarf að vinna að.

Velferð hrossa verður áfram í fyrirrúmi og ætlunin er að nýta heilbrigðisskoðanir á stórmótum  til að halda áfram að byggja upp þekkingu og meta hvort við erum á réttri leið.  En vonandi erum við komin það vel á veg í fyrirbyggjandi aðgerðum að hægt er að beina kastljósinu að jákvæðari þáttum hestamennskunnar. Það eru mörg spennandi og aðkallandi verkefni framundan og við megum ekki festast um of í umræðunni um búnað og áverka. Það mikilvægasta er að setja kraft í kynningu á hestinum innanlands og utan og glæða aukin áhuga og markaði fyrir íslenska hestinn. Þá þurfum við að setja allt það jákvæða í kringum hestinn okkar í forgrunn og þar er af nægu að taka.

Þorvaldur Kristjánsson.