mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætlar að gera atlögu að þeim bestu - Viðtal við landsliðsknapann Heklu Katharínu-

12. júlí 2011 kl. 15:28

Ætlar að gera atlögu að þeim bestu - Viðtal við landsliðsknapann Heklu Katharínu-

Þau hafa heldur betur stimplað sig inn sem eitt sterkasta keppnispar á íþróttavellinum undanfarið ár og eru meðal annars ríkjandi Íslandsmeistarar ungmenna, bæði í tölti og fjórgangi. Það er því með sanni hægt að segja að Ísland muni stilla fram með stolti Heklu Katharínu Kristinsdóttur og Gautreki frá Torfastöðum sem fulltrúum okkar í ungmennaflokki á Heimsmeistaramótinu í Austurríki.

Eiðfaxi sló á þráðinn til Heklu Katharínu til að hlera undirbúningsvinnuna fyrir þetta stóra verkefni. Hekla var þá í óða önn að reka kindur en sá sér fært um að svara spurningum, augljóslega fjölhæf kona með eindæmum.

Lokakeppni Heklu Katharínu og Gautreks hér á landi var þátttaka þeirra í ungmennaflokki í Landsmóti og lentu þau 6. sæti þar sem yngri systir hennar, Rakel Nathalie, sigraði. “Fyrir okkur Gautrek var þetta góður árangur því Gautrekur er íþróttakeppnishestur að upplagi og ég vissi að við hefðum ekki í við þessi efstu hross í gæðingakeppninni. En við nörtuðum þó í þau og ég var afar ánægð með hvað mikið fútt var í okkur,” segir hún.

Innt eftir lýsingu á Gautrek segir Hekla að hann sé frábært hross. “Hann leggur sig alltaf 100% fram og er svolítið töffaralegur að mínu mati. Þegar við kynntumst þá var hann vel undirbúinn en hafði farið svolítið á milli manna og ég held að það hafi gert honum mjög gott að fá einn fastan þjálfara sem gat fylgt honum á eftir. Gautrekur hefur mikið skap og oft þarf að semja svolítið við hann til að hafa hann á sínu bandi. En þegar til kastanna kemur þá svíkur hann mig aldrei. Hann hefur til dæmis aldrei skeikað í úrslitum,” segir hún en óar “7-9-13” upp yfir sig um leið og hún sleppir orðinu.

Í dag er Gautrekur í undirbúningsþjálfun eftir að hafa fengið örlítið frí. “Hann fékk vikulangt frí eftir Landsmót enda hefur verið mikið álag á honum í vetur og vor. Hann fékk að fara í tvær merar og njóta sín, narta í grænt gras og slappa aðeins af. Ég þorði ekki að láta hann neitt frá mér svo hann er bara hér heimavið. Nú er ég hins vegar byrjuð að reka hann, en ég hef aðgang að svo flottum rekstrarhring. Svo munum við halda áfram markvissri þjálfun. Ég vona hins vegar að ég sé búin að þjálfa hann nóg í vetur, hann á að vera reiðubúinn fyrir átökin,” segir Hekla Katharína en hún hefur notið góðrar leiðsagnar Antons Páls Níelssonar auk þess sem foreldrar hennar og landsliðsstjórarnir fylgjast með öllum undirbúning.

Markmið Heklu Katharínu er að vonum há en þau munu keppa bæði í tölt- og fjórgangskeppni. “Ég hef látið niður mín persónulegu markmið. Auðvitað vil ég gera atlögu að þessu bestu ungmennum og stefni harðan að því,” segir hún og bætir við að nú, þegar verið er að kynna önnur landslið, sé hún byrjuð að skoða keppinautanna.

Gautrekur flýgur til Austurríkis 24. júlí  og mun Hekla Katharína ekki mæta á honum á Íslandsmótið. Hún hefur þó skráð sig á mótið með nýja vonarstjörnu.

“Þó aðaláherslan mín þessa daganna sé þjálfunin fyrir HM þá ætla ég að mæta með ungan stóðhest, Hring frá Skarði, í fimmgangskeppnina. Hring sýndi ég á kynbótasýningum í vor og á Landsmóti. Þetta verður hins vegar hans fyrsta íþróttamót svo það verður gaman að sjá hvernig okkur tekst til,” segir hún um leið og hún orgar á jarmandi kindur.

Þó Hekla Katharína sé auðheyranlega spennt fyrir Heimsmeistaramótinu þá segist hún varla geta hugsað til þess að kveðja Gautrek að móti loknu. “Kveðjustundin verður skelfileg og mér finnst hræðilegt að hugsa til hennar. En einhvers staðar þarf ferill okkar að enda og það er frábært að fá tækifæri til að enda hann á Heimsmeistaramóti. Vonandi tekur svo eitthvað annað gott við hjá okkur báðum,” segir hinn fjölhæfi landsliðsknapi að lokum.