föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla senda þá beint á bekkinn

1. júlí 2016 kl. 10:50

Ámundur Ernir og Spölur frá Njarðvík í léttri sveiflu.

Ásmundur Ernir kolféll fyrir Speli.

Ásmundur Ernir Snorrason er knapi sem hefur vakið mikla athygli á Landsmótinu hér á Hólum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann mikla keppnisreynslu og verið með góð hross í gegnum tíðina. Hér á Hólum keppir hann á graðhestinum Speli frá Njarðvík, 10 vetra undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum og Sælu frá Sigríðarstöðum og er í eigu Ásdísar Adoflsdóttur og Brynjars Guðmundssonar.

Eigendur Spalar komu til Ásmundar fyrir þremur árum og báðu hann um að keppa á honum á Tommamótinu sem haldið var í Víðidal. Hann fékk stuttan tíma að prófa klárinn eða um viku en það þurfti ekki meira til því Ásmundur, eða Ási eins og hann er kallaður í daglegu tali, kolféll fyrir klárnum um leið. Fann að klárinn hefði mikla hæfileika og hefur Ási verið að vinna stöðugt í því að ná þeim fram sem hefur kostað blóð, svita og tár en er að uppskera og veita þeir félagar andstæðingum sínum mikla keppni.

Þegar blaðamaður spyr Ása það því hvernig honum finnist þessi athygli sem þeir Spölur hafa vakið segir hann að það sé mjög gaman að eftir honum sé tekið og fólki líki klárinn. Klárinn hefur mikla útgeislun og er alltaf tilbúin að vinna með knapa sínum og gefa þeir alltaf 100% af sér þegar þeir ríða í braut. Ási og Spölur eiga þátttökurétt í A – úrslitum, bæði í tölti og B – flokk. Vegna mikils álags á klárnum ákvað Ási að draga þá út úr úrslitinum í tölti og einbeita sér að B – flokknum. ,,Við erum meira innstilltir á B – flokkinn og Spölur meira B – flokks stemmdur. Ég er ekki alveg nógu sáttur við að fínu smáatriðin sem verða að vera til staðar í töltinu eru ekki alveg nógu góð þannig að við stefnum á að veita keppninautum okkar harða keppni og senda þá bara á bekkinn,” segir Ási og hlær en Ási er yngstur knapanna sem taka þátt í A – úrslitunum.

Ási á tvær yngri systur, Jóhönnu Margréti og Signýju Sól, sem eru einnig að keppa hér á Hólum. Jóhanna keppir í ungmennaflokki á hestinum Stjörnufák frá Blöndósi og Signý Sól í barnaflokki og er þar í A – úrslitum á hestinum Rafni frá Melabergi. Stóri bróðir reynir eins og hann getur að aðstoða systur sínar og miðla reynslu sinni en þó meira til þeirra yngri því Jóhanna er einnig reynslumikill keppnisknapi. Verst finnst Ása þó að geta ekki aðstoðað litlu systur meira því hann býr fyrir austan í Landeyjunum í Strandahöfði þar sem hann vinnur við þjálfun og tamningu hrossa ásamt kærustu sinni Stellu Sólveigu Pálmarsdóttur.

Ási og Stella Sólveig eiga von á barni í nóvember og eru mjög spennt að takast á við nýtt hlutverk. ,, Mér er sagt að það sé stelpa. Hún verður alvöru knapi og ég ætla að byrja strax að þjálfa hana. Hún verður góð viðbót við þetta kvennaveldi sem ég bý við,” sagði Ásmundur að lokum.

 

Eiðfaxi óskar Ása og Speli góðs gengis í úrslitunum og verðandi foreldrum til hamingju með erfingjann.