sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðventa frá Skarði-

28. desember 2011 kl. 10:18

Aðventa frá Skarði-

Herta frá Skarði kastaði um miðjan desember þessu rauðstjörnótta merfolald á Minna-Hofi í Gnúpverjahreppi. Þá var eigandanum, Elvari Eiríkssyni, ekki kunnugt að hryssan væri með fyli og kom þetta honum í opna skjöldu.

„Merin fór t.d. í 10 daga stífa hestaferð í sumar, frá Gnúpverjahreppi vestur að Hótel Eldborg og til baka. Bændurnir á Hæli Gnúp sjá um útigangshrossin þarna og höfðu gefið hrossunum tveimur dögum áður og ekki séð neitt sem benti til þess að merin væri við það að kasta. Folaldið hefur því verið 1-2 daga gamalt þegar þess varð vart,“ segir Elvar sem brunaði úr borginni austur að Hæl þegar hann fékk fréttirnar. „Ég kom þeim mæðgum á kerru með aðstoð félaga minna og eru þær nú staddar í Unnarholtskoti í Hrunamannahreppi við bestu hugsanlegu aðstæður fyrir folöld sem fæðast á þessum árstíma. Þar ganga þær úti við opið hús sem þær geta svo farið inn í þegar þeim sýnist.“

Herta mjólkar vel og folaldið er sprækt og mikill leikur í því, að sögn Elvars, en það hlaut að sjálfsögðu nafn við hæfi, Aðventa og er kennd við Skarð í Gnúpverjarhreppi. Enn er á huldu hver faðir Aðventu sé. „Tveir stórættaðir hestar koma til greina, báðir í eigu nágranna míns í hesthúsi í Reykjavík. Tæknin mun leiða rétt faðerni í ljós.“