miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Að taka Púlsinn

odinn@eidfaxi.is
24. febrúar 2019 kl. 16:53

Púlsinn - Mette og Kalsi

Það er rétt að hrósa Hrossaræktarsamtökunum fyrir frumkvæðið og kjarkinn í að brjóta upp hið hefðbundna sýningarform með því að bjóða upp á sýningu sem þessa.

Í gær laugardag héldu Hrossaræktarsamtök Suðurlands í fyrsta sinn sýninguna Púlsinn en í kynningu á sýningunni var henni lýst sem fræðslusýningu fagaðila í hestamennsku þar sem almenningi og öðrum gefst kostur á að fá innsýn í heim þeirra sem hafa lifibrauð sitt af hestamennsku.

Í upphafi sýningarinnar kom Guðni Ágústsson fyrrverandi Landbúnaðarráðherra í salinn á hestvagni sem átti eftir að vera vettvangur viðtala við viðmælendur sýningarinnar. Guðni hélt innblásna þrumuræðu eins og hann er þekktur fyrir þar sem hann stappaði stálinu í okkur unnendur íslenska hestsisn og náttúru landsins. Þetta var hressandi upphaf sýningarinnar þar sem margir af fremstu hestum og knöpum landsins komu fram.

Mette Mannseth og Gísli Gíslason koma alls með þrjá stóðhesta úr hesthúsinu á Þúfum. Fyrst kom Gísli á Þór frá Tofrunesi, hæst dæmda 5 vetra stóðhesti árisins í fyrra en Mette lýsti því sem fyrir augu bar. Þór er gripamikill alhliðahestur sem þau hafa þjálfað frá því að hann var á fjórða vetri. Hinir tveir stóðhestarnir sem þau komu með að norðan voru Kalsi frá Þúfum gæðingur úr þeirra eigin ræktun með 9,0 fyrir tölt, brokk og skeið en hann er undan Lygnudóttirnni Kylju frá Stangarholti og Trymbli frá Stóra-Ási sem einnig kom fram á sýningunni. Mette reið Kalsa og útskýrði hvað stendur á bak við þjálfun hans og hvað hún telur rétt að meta megi/skuli í ganghæfni hrossa. Sem dæmi sýndi hún mismunandi gerðir fets, brokks og tölts með misháu orkustigi og söfnun. Gísli sýndi Trymbil og auðsjáanlegt er að þar fara félagar sem þekkja hvorn annan mjög vel. Trymbill er fasmikill tölthestur sem er fimur og flugavakur. Sýndi Gísli kosti hans, orku og fjölhæfni frábærlega múllaus við íslenskar stangir.

Á milli stóðhestakynninga og kennslusýninga voru viðtöl við einstaklinga sem eiga snertiflöt við hestamennskunna frá ýmsum hliðum. Eysteinn Leifsson sagði frá upplifun sinni á markaðinum, útfluttningi og hverning við kynnum/seljum hestinn okkar. Guðmundur Viðarsson ferðaþjónustubóndi og hrossaræktandi í Skálakoti var tekinn tali um hans sýn á þessi mál og Kristinn Guðnasson í Árbæjarhjáleigu miðlaði af áratuga reynslu sinni en hann hefur kynnst hestinum frá ýmsum hliðum hennar.

Ólafur Andri kynnti Stálasoninn Máf frá Kjarri sem hann sýndi á öllum gangi enda þar á ferð flugvakur, frábær tölthestur en Ólafur er reyndur reiðkennari og útskýrði þjálfun hestsins vel fyrir áhorfendum. Fyrir áhugafólk á erfðafræði kynnti Páll Imsland hinn Ýruskjótta Ellert frá Baldurshaga sem Rósa Birna sýndi en eftir að Páll hafði frætt áhorfendur um litaerfðir þessa nýja litar tók Rósa við og kynnti hestinn og þjálfun hans. Það er kostur að Ellert er greinilega gegnmjúkur ganghestur sem fer fallega undir knapanum. Það er eitt að bera fallegan lit en kostur er að reiðhesthæfileikar fylgi ætlist menn til að liturinn nái fótfestu í stofninum.

Dagskráin var ítarleg, vel skipulögð en þó er ekki hægt að ætlast til að sitja yfir öllu því sem þar var í boði. Af þessari ástæðu sá undirritaður ekki allt sem fram fór inn í sal því að hluti af þéttum fræðsludegi eins og Púlsinn er að hitta aðra áhugamenn, ræða við þá það sem á mönnum liggur. Af þessum ástæðum missti undirritaður af Dökkva frá Strandarhöfði og Grím frá Skógarási, tveimur frábærum gæðahestum sem eru að stíga sín fyrstu skref sem keppnishestar. Þeir voru sýndir af Ásmundi Erni og Hönnu Rún, tveimur af bestu knöpum okkar af yngri kynslóðinni.

Sýnikennslur dagsins voru ekki af verri endanum en auk fyrrnefndrar Mette þá voru það Jakob Svavar og Olil Amble sem gáfu áhrofendum innsýn inn í þjálfunaraðferðir sínar. Jakob var á Konsert frá Hofi sem hann lenti þó í hærra spennustigi með en hann sagðist hafa viljað en útskýrði vel hvernig hann vinnur með það sem upp kemur með orkumikinn hest eins og Konsert. Olil lýsti þjálfun á tveimur stóðhestum úr Ketilsstaðaræktuninni, þeim Frama sem Elin reið og Goða sem Brynja reið. Í öllum sýnikennslunum var boðið upp á spurningar úr sal, en í kjölfar þeirra spannst oft upp skemmtileg umræða.

Það er rétt að hrósa Hrossaræktarsamtökunum fyrir frumkvæðið og kjarkinn í að brjóta upp hið hefðbundna sýningarform með því að bjóða upp á sýningu sem þessa. Þroski greinarinnar er að komast á þann stað að dagur sem þessi á fullt erindi og allir þeir sem þarna komu lýstu ánægu sinni með framtakið. Eins og vitað var þá á þessi viðburður eftir að vaxa og þroskast þar sem að viðbætur verða teknar upp og vankantar sniðnir af. Þetta er klárlega einn skemmtilegasti og áhugaverðasti sproti sem sprottið hefur upp í fjölbreyttri sýningaflóru sem orðin er í hestamennsku hér á landi.