þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Að Stóðhestadegi loknum

28. apríl 2013 kl. 22:28

Að Stóðhestadegi loknum

Í gær var Stóðhestadagur Eiðfaxa haldin á Selfossi. Mikill fjöldi áhorfenda og gæðingshrossa voru á staðnum en alls voru tíu afkvæmahópar sýndir auk fjöld einstaklinga. Veðrið var prýðilegt en talsverð rigning var um morguninn og stytti upp um hádegið og hélst þurrt að mestu á meðan sýningunni stóð.

Í hléinu var Jakob Sigurðsson með stutta sýnikennslu auk þess sem Freyja Imsland fór stuttlega yfir erfðir Litnings frá Möðrufelli sem er einstakur að því leiti að vera bæði rauðskjóttur og brúnskjóttur. Fimm stóðhestar voru í stíum inni í höll en það voru þeir Adam frá Ásmundarstöðum, Roði frá Múla, Hrymur frá Hofi, Blysfari frá Fremri-Hálsi auk fyrrnefnds Litnings. Nokkur fyrirtæki voru með vörukynningu og veitingasala á vegum æskulýðsnefndar Sleipnis.

Margt frábærra hrossa kom fram og tókst framkvæmdin að flestu leiti vel, en alltaf er hægt að læra af framkvæmd sem þessari. Dagskráin var löng og voru flestir á því að setja þyrfti mörk á hve margar ferðir hvert atriði riði.

Það sýnir sig á hve margir mættu á Brávelli að áhugi er fyrir sýningu sem þessari en ljóst er að hægt er að gera enn betur. Þessi sýning hefur nú enn frekar fest sig í sessi og munum við taka það sem vel var gert með okkur og bæta það sem betur má fara til að gera þennan viðburð betri ár frá ári.

Eiðfaxi þakkar öllum þeim sem að sýningunni komu kærlega fyrir sitt framlag og áhugafólki um hrossarækt sem mætti á Brávelli fyrir komuna.

odinn@eidfaxi.is