sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Að sanna sig í deildinni

18. janúar 2015 kl. 17:00

Prestur frá Hæli, knapi Viðar Ingólfsson.

Meistaradeildin reynist góður söluvettvangur.

Senn líður að fyrsta móti Meistaradeildin í hestaíþróttum. Innanhúsdeildin hefur svo sannarlega fest sig í sessi sem einn af aðalíþróttaviðburðum hestamennskunnar ár hvert. Áhugamenn um allt land fylgjast grannt með mótunum og sjónvarpsstöðvar hafa séð hag sinn í að búa til þáttaraðir kringum viðburðina.

Í Meistaradeild keppa okkar fremstu knapar og tamningamenn. Hestakostur þeirra er því aldrei af verri endanum og hefur deildin óneitanlega reynist góður vettvangur til að koma fram með frambærileg söluhross, upprennandi keppnishross.

Ef litið er á ráslista fyrsta móts Meistaradeildar fyrir ári síðan, fjórgangi, má sjá að allnokkur þeirra skiptu um eigendur í kjölfari mótsins. Alls hafa átta þeirra  hafa lagt land undir fót; Stórval frá Lundi sem Hinrik Bragason keppti á fór til Sviss, Prestur frá Hæli, hestur Viðar Ingólfssonar, fór til Svíþjóðar, Hraunar frá Svalbarðseyri sem Daníel Jónsson mætti með fór til Danmörku, keppnishestur Jakobs Svavars Sigurðssonar Asi frá Lundum II fór til Belgíu, Tónn frá Melkoti sem Reynir Örn Pálmason mætti a´fór til Svíþjóðar, Fálmar frá Ketilsstöðum sem Olil Amble tefldi fram með góðum árangri fór til Noregs, Sólon frá Vesturkoti sem Gústaf Ásgeir Hinriksson keppti á fór til Noregs og Hlekkur frá Þingnesi, hestur Eyjólfs Þorsteinssonar, er farin til Svíþjóðar þó hann hafi ekki skipt um eigendur.

Það ríkir ávallt nokkur spenna meðal hestamanna að sjá hvaða hross stórknapar Meistaradeildar tefla fram ár hvert. Von er á ráslista fyrir fjórgangskeppnina í vikunni fyrir mótið, sem haldið verður fimmtudagskvöldið 29. janúar.