miðvikudagur, 26. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Að ríða feitum hesti frá mótahaldi

26. september 2012 kl. 09:57

Að ríða feitum hesti frá mótahaldi

Hestamannafélög græða ekki á mótshaldi segir í grein sem birtist á heimasíðu hestamannafélagsins Fáks í gær. Þvert á móti gekk hestamannafélagið frá rekstri Reykjavíkurmeistaramótsins í ár með tapi. Greinahöfundur spyr er hverjir það eru sem eigi að borga brúsann og segir ljóst að skoða þurfi málin ef standa eigi vel að mótahaldi í framtíðinni.

 
Greinin í fullri lengd:
 
Að ríða feitum hesti frá mótahaldinu
 
Töluverð umræða var í sumar um skráningargjöld keppenda sem sumum finnst of há. Einnig hafa einhverjir viljað halda því fram að mótshaldarar séu að ríða feitum hesti frá mótahaldinu en það skal nú upplýst að þessi „feiti hestur“ fengi við nánari skoðun ca. 1 í holdastigi (grindhoraður) og fengi aldrei keppnisleyfi ef út í það er farið.
 
 Ef við skoðum t.d. Reykjavíkurmót Fáks, sem er stærsta íþróttamót í hestaíþróttum sem haldið er í dag og ætti því á margan hátt að vera auðveldara að láta standa undir sér. Á Reykjavíkurmótinu hefur undanfarin ár verið keppt í 27 flokkum í hinum hefðbundnu hestaíþróttakeppnisgreinum og stendur mótið yfir í 5 daga, frá 8 tímum upp í 12 tíma á dag.  Hér meðfylgjandi er uppgjör mótsins 2012 og þá sést að mótið er í peningalegu tapi upp á kr.  51.858-
 
Mótatekjur, skráningargjöld               2.352.000
Styrkir                                                   300.000
Samtals tekjur                                    2.652.000
 
Dómarar                                            1.432.558
Fæði dómara og starfsfólks              195.000
Verðlaunapeningar                            706.500
Hljóðkerfi og útvarp                           144.185
Mótafengur                                        66.000
Mótsskrá                                             60.240
Tímatökubúnaður                              34.000
Startbásar – flutningur                      19.500             
Annar mótakostnaður                         45.875
Samtals gjöld                                  2.703.858
 
                                             Tap kr. 51.858.-
 
Ef allt væri reiknað inn í dæmið væri tapið mun meira því starfsmenn Fáks starfa að mótinu allan tímann sem og sjálfboðaliðar sem leggja hönd á plóg og fá ekkert fyrir nema fæði á meðan þeir eru á vakt. Það þarf um 13 manns á vakt fyrir utan dómara svo það leggja margir hönd á plóg við að halda úti mótunum. Ef þetta fólk væri á ca. 1.000 kr. tímann (ekki hátt yfirvinnukaup) þá væri kostnaðurinn sem bættist við með starfsmönnum Fáks um 950.000 kr. Undirbúningur mótanefndar er líka töluverður og ef þyrfti að kaupa þær vinnustundir  þá væri það um 200.000. Þá vantar að reikna kostnað vegna keppnisvallanna en sá kostnaður hefur verið í ársreikningum Fáks undanfarin ár um 2 millj. á ári sem auðvitað ætti að dreifast á fleiri mót og annað. Vallargjald ætti því að vera að lágmarki  1.000.- kr. per skráningu, sem gerir um 660.000.- fyrir síðasta Reykjavíkurmót (í kynbótasýningunum borgar hvert kynbótahross kr. 2.210 fyrir vallargjald).  Heldur er farið að halla á mótshaldara þó svo annar ýmis kostnaður s.s. tölvur, startbásar  og ýmis annar búnaður er ekki reiknaður inn í dæmið.  Í heild eru þetta rétt tæpar 2 milljónir  sem Fákur borgar með Reykjavíkurmótinu í ár, en ætti í raun að koma nokkurn vegnin á sléttu til að hægt sé að réttlæta þetta fyrir öllum félagsmönnum. 
 
Mótahald byggir því mikið á þessum sjálfboðaliðum sem leggja fram krafta sína og tíma til að mót geti verið haldin. Sjálfboðaliðarnir sem koma að mótunum eru eiginlega hinar sönnu hetjur mótanna því án þeirra væru ekki mót haldin í dag því sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu félagsins og fyrir þá sem eru að keppa. Það verður því að passa vel upp á þessa sjaldgæfu tegund sem sjálfboðaliðinn er því ekki má eyðileggja þá með of miklu vinnuálagi en sumir sem leggja mest af mörkunum eru að gefa yfir 200 klukkustundir í vinnu við mótin á hverju ári og þó þetta sé oft gaman þá eru þetta ekki alltaf ánægjustundir (það þekkja þeir vel sem hafa starfað að mótum).
 
Þá er það stóra spurningin hver á að borga brúsann, eru það keppendur eða hestamannafélögin sjálf. Það er alla vega ljóst að skoða þarf þessi mál í samvinnu við dómara, keppendur og mótshaldara. Örugglega er hægt að skera eitthvað niður en það er alltaf spurning um hvernig mót menn vilja halda. Stræsti liðurinn eru dómarakostnaður. Á Reykjavíkurmótinu þarf að vera a.m.k. einn erlendur dómari því World Ranking mót krefst þess. Þessum dómara þarf að borga flugfar, laun, gistingu, en Sigrún Sig. lánaði okkur bústaðinn sinn fyrir erlenda dómarann í ár endurgjaldlaust svo ekki var kostnaður við það í ár. Einnig vorum við við skikkaðir til að vera með 10 dómara á mótinu og t.d. þegar eru úrslitadagar eins og á laugardeginum og sunnudeginum, þá eru allir dómarar á launum. Eitthvað mætti skera niður í verðlaunagripum, en við hestamenn eru svolítið verðlaunaóðir, t.d. eru flottir bikarar yfirleitt í verðlaun á öllum mótum en t.d. fótboltamaður sem verður Íslandsmeistari eftir marga leiki og langt keppnistímabil fær einn verðlaunapening.
 
Það er alla vega ljóst að skoða þarf þessi mál betur ef við hestamenn ætlum að standa vel að og helst efla mótahaldið í framtíðinni en þá þurfa allir að standa saman og skipuleggja mótin og mótahaldið þannig að „feiti hesturinn okkar“  falli ekki úr hor.