miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ábending og leiðrétting

odinn@eidfaxi.is
15. ágúst 2013 kl. 11:57

Ingólfshvoll

Vegna fréttar um Ingólfshvol í júlíhefti Eiðfaxa.

Eiðfaxa barst eftirfarandi leiðrétting frá Erni Karlssyni:

Ágæta ritstjórn.

Í júlíblaði Eiðfaxa er fjallað um Ingólfshvol á síðu tvö. Eftir lestur þessarar fréttar er ekki hjá komist að leiðrétta veigamikla rangfærslu blaðsins og rangfærslu í tilvitnuðum orðum Gunnars Andrésar Jóhannssonar í fréttinni.

Í þessari stuttu frétt er í þrígang sagt að Gunnar Andrés Jóhannsson hafi eignast jörðina Ingólfshvol í skuldauppgjöri.

Sá hængur er á að skuldauppgjör milli Gunnars Andrésar og réttmæts eiganda jarðarinnar, Gljúfurbyggðar, hefur aldrei farið fram.

Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir til Gunnars Andrésar og lögmanna hans undir forystu Ásgeirs Þórs Árnasonar hrl., bæði fyrir og eftir nauðungarsölu á Ingólfshvoli, hefur aldrei farið fram skuldauppgjör milli Gljúfurbyggðar og Gunnars Andrésar.

Nauðungargjörningurinn, þ.e. nauðungarsalan á Ingólfshvoli á ágúst 2009, var knúinn fram á grundvelli þess réttarfarshagræðis sem skuldabréf með beinni aðfararheimild búa yfir.  Engar greiðslur, hversu háar sem væru, jafnvel þótt þær væru greiddar beint inn á persónulegan bankareikning Gunnars Andrésar Jóhannssonar gátu komið í veg fyrir nauðungargjörning hans ómerktar inn á tiltekið skuldabréf. Vegna trausts til Gunnars Andrésar voru háar greiðslur, sem greiddar voru til hans í góðri trú inn á skuldabréfin með veði í Ingólfshvoli ekki sérmerktar inn á tiltekin skuldabréf. Gunnar Andrés heldur á þessum fjármunum í óskilgreindu tómarúmi. Við skuldauppgjör munu þessir fjármunir á endanum ganga inn á skuldabréfin og vísast verður þá sýnt að þau voru í skilum þegar nauðungarsölu var krafist.

Rétt er að benda á að Gunnar Andrés knúði fram nauðungarsölu án skuldauppgjörs þótt fyrir lægi að börn undirritaðs og fyrrverandi kona ættu lögfest heimili á Ingólfshvoli. Með því að knýja fram nauðungarsölu án skuldauppgjörs virti Gunnar Andrés að vettugi stjórnarskrárvarða friðhelgi heimilis barna minna og  í kjölfarið, án skuldauppgjörs, ruddi hann heimili þeirra.

Nokkur dómsmál milli Gljúfurbyggðar og Gunnars Andrésar hafa þegar farið fram, sem marka grunn að skuldauppgjöri. Endanlegt skuldauppgjör, vegna skuldabréfa Gunnars Andrésar með veði í Ingólfshvoli, stendur nú fyrir dyrum með því að Gunnari Andrési verður stefnt til þess í viðurkennigarmáli fyrir dómstólum.

Icelandair og þeir lífeyrissjóðir sem eru þátttakendur í kaupunum á Ingólfshvoli eru nú orðnir óbeinir þátttakendur í hinum barbarísku viðskiptaháttum Gunnars Andrésar. Býst ég við að þessir aðilar séu vandaðri að virðingu sinni en svo að þeir hafi tekið slíka ákvörðun upplýstir. Hér með er þeim boðið að kynna sér málin ofan í kjölinn.

Virðingarfyllst,

Örn Karlsson